Ungir umhverfissinnar hafa hækkað einkunn Sjálfstæðisflokksins á kvarða sem þeir bjuggu til og gefur stjórnmálaflokkunum einkunn fyrir stefnu þeirra í umhverfis- og loftslagsmálum fyrir komandi kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk upphafleg 5,3 stig af 100 mögulegum en hefur nú verið hækkaður í 21 stig. Hægt er að sjá hér hvaða stig það voru sem breyttust.
Við það færist hann úr því að vera með þriðju lægstu einkunnina, á undan Flokki fólksins og Miðflokki sem fengu eitt stig hvor, í að vera með þá fjórðu lægstu, á undan Framsóknarflokknum (13 stig) líka.
Ungir umhverssinnar rýndu í stefnur flokkanna og gáfu þeim svo í kjölfarið einkunn á skalanum 0 upp í 100. Þeir kynntu niðurstöður sínar 3. september síðastliðinn. Kvarðinn skiptist í þrjá hluta og fást 40 stig að hámarki fyrir áherslur í loftslagsmálum, 30 stig fyrir náttúruvernd og 30 stig fyrir hringrásarsamfélag. Píratar fengu alls 81,2 stig, Vinstri græn fengu 80,3 stig og Viðreisn fékk 76,3 stig.
Þeir flokkar sem næstir koma voru Samfylkingin með 48,8 stig og Sósíalistaflokkur með 37 stig.
Tóku ekki tillit til ályktunar frá 2018
Ungir umhverfissinnar sendu frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem fram kemur að í kjölfar ábendingar frá Sjálfstæðisflokknum hafi komið í ljós að gögn frá flokknum voru ekki meðhöndluð með réttum hætti. „Ungir umhverfissinnar harma þessi mistök og biðja Sjálfstæðisflokkinn afsökunar á þeim.“
Í tilkynningu Ungra umhverfissinna segir að þau mistök hafi verið gerð að matsaðilar skildu sem svo að gögn sem bárust frá Sjálfstæðisflokknum væru uppfærð gögn frá þeim sem þeim hafði áður borist frá flokknum. „Því voru einungis nýsamþykktar ályktanir málefnanefnda af flokksráðsfundi teknar með í matið, en ályktun umhverfis- og samgöngunefndar frá landsfundi flokksins árið 2018 ekki notuð til grundvallar matsins.
Eftir að mistökin uppgötvuðust voru matsaðilar látnir fara aftur yfir stigagjöf Sjálfstæðisflokksins, við það mat var einnig tekið tillit til ályktana umhverfis- og samgöngunefndar frá landsfundi flokksins árið 2018. Við yfirferðina bættust 15,7 stig við stigagjöf flokksins, og er því uppfærð lokaeinkunn Sjálfstæðisflokksins 21 stig (af 100 mögulegum).“
Hægt er að sjá uppfærða einkunnartöflu hér að neðan: