Greiðslan sem Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) fékk fyrir að spila vináttulandsleik við Sádi-Arabíu í nóvember fór öll í kostnað við leikinn sjálfan.
„Það var ekkert eftir,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í viðtali við Kjarnanna sem birtist á jóladag.
Í viðtalinu fer Vanda yfir fyrsta rúma árið í starfi formanns KSÍ, gagnrýnina sem virðist fylgja starfinu og baráttu hennar fyrir jafnréttismálum innan og utan knattspyrnuhreyfingarinnar.
Ákvörðun KSÍ um að spila leikinn við Sádi-Arabíu sætti mikilli gagnrýni. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa verið gagnrýnd fyrir ítrekuð mannréttindabrot og sögð stunda „sportþvott“ (e. sportswashing), það er að reynt að bæta ímynd sína með því að tengjast íþróttaviðburðum eða íþróttaliðum og beisla það mjúka vald sem íþróttirnar hafa í dægurmenningu nútímans. Sveigja almenningsálitið sér í vil.
Í frétt Stundarinnar í lok nóvember kemur fram að KSÍ hafi fengið tugi milljóna króna greidda fyrir vináttulandsleikinn.
Vanda segir ekki rétt að tala um tugi milljóna en vill ekki upplýsa um upphæðina, meðal annars vegna trúnaðar sem ríki milli KSÍ og viðkomandi sérsambanda og einnig umboðsmanna sem sjá um að semja um greiðslurnar.
Vanda gefur þó upp að greiðslan hafi aðeins staðið undir kostnaði við ferð landsliðsins til Abu Dhabi þar sem leikurinn fór fram. „Það var ekkert eftir. Jú, auðvitað fengum við peninginn fyrir kostnaðinum, ég hef allan tímann sagt það en meira var það ekki.“
Í sama landsliðsglugga spilaði liðið gegn Suður-Kóreu, sem einnig fékkst greiðsla fyrir. Og þar var afgangur. Hversu mikill vill KSÍ ekki gefa upp.
Sniðganga er ekki svarið
Vináttuleikur við Sádi-Arabíu kom fyrst upp í umræðuna fljótlega eftir að Vanda tók við formennsku í KSÍ. Í fyrstu var um stærri samning að ræða en KSÍ ákvað að ganga ekki að honum.
Í vor kom önnur beiðni um að spila vináttuleik og við henni varð KSÍ. Vanda segir að ákvörðunin hafi verið erfið en niðurstaðan var sú að taka boðinu og nýta það til að eiga samtal og nýta fótboltann til samtals í stað þess að sniðganga.
„Ég skil fólkið sem er hundfúlt út í okkur. Ég skil gagnrýnina og þetta er mjög flókið. En, allan tímann fer ég alltaf til baka í að hugsa: Af hverju erum við að gera þetta? Ég er ekki að segja þetta sé fullkomið, ég veit um brotin, en það hafa orðið breytingar. Það hafa orðið jákvæðar breytingar í Sádi-Arabíu í átt að betri mannréttindum. Eru þau fullkomin? Nei. Eiga þau eftir að vinna í mörg ár í viðbót? Já, engin spuning.“
Vanda sleit liðþófa svo hún komst ekki á leikinn við Sádi-Arabíu eftir allt saman. Hún óskaði þess í stað eftir fundi með knattspyrnusambandi Sádi-Arabíu í Katar í upphafi heimsmeistaramótsins í nóvember.
„Ég fundaði með formanninum og framkvæmdastjóranum og þá kemur í ljós að formaðurinn kemur til starfa 2019 og setti það mjög ofarlega hjá sér að hann vill stofna kvennalandslið og koma deildarkeppni af stað. Hann hafði þetta í gegn. Núna er komin deild og það er komið landslið.“
Þetta eru dæmi um breytingar sem KSÍ vill styðja við. „Fólk þarf ekki að vera sammála en staða kvenna og mannréttindi fara hönd í hönd. Ég trúi því, og ekki bara ég, að ef þú bætir stöðu kvenna þá getur þú bætt mannréttindi. Og hvað er það sem við getum gert? Sniðganga er ekki svarið,“ segir Vanda og vísar í finnskan kollega sinn.
„Líkt og hann sagði, fyrir lönd sem eru svona lítil, ef við ætlum að hafa einhver áhrif þá verðum við að nota röddina okkar, að nota þrýsting, nota samtal. Það er eina leiðin sem við höfum til að ná fram einhverjum breytingum.“
Það eigi einnig við um ríki eins og Sádi-Arabíu þar sem mannréttindabrot eru staðreynd. „Ég skil gagnrýnina. Algjörlega,“ ítrekar Vanda. „En, þetta var leiðin fyrir okkur inn.“
Viðtalið við Vöndu má lesa í heild sinni hér.