Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hin svokölluðu starfsmannalög, taka til ríkisendurskoðanda og eru einstök ákvæði laganna, þar á meðal þau sem fjalla um flutning embættismanna, þar ekki undanskilin. Í lögum eru engin ákvæði sem girða fyrir að embættismaður geti flust í annað embætti sem heyrir undir annan geira ríkisvaldsins.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem skrifstofa Alþingis tók saman í tilefni af framkomnum athugasemdum bæði umboðsmanns Alþingis og þingmanna við flutning Skúla Eggert Þórðarsonar ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti Lilju Alfreðsdóttur.
Afstaða ekki tekin til þess hvort flutningurinn sé heppilegur
Í minnisblaðinu, sem birt var á vef Alþingis í gær ásamt öðrum gögnum sem varða flutning Skúla Eggerts í embætti ráðuneytisstjóra, er þó ekki tekin nein afstaða til þess „hvort almennt sé heppilegt að embættismaður sem kjörinn er af Alþingi til þess að gegna trúnaðarstörfum á þess vegum sé fluttur í embætti er heyrir undir ráðherra að skipa í“.
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar gagnrýndi skipan Skúla Eggerts í embætti ráðuneytisstjóra á þessum sama grundvelli á þriðjudaginn og fullyrti að verið væri að misbeita 36. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með skipan ríkisendurskoðanda í ráðuneytisstjóraembættið og setja „hættulegt fordæmi“.
Skúli Eggert samþykkur flutningi
Ríkisendurskoðandinn fyrrverandi sendi forseta Alþingis, Birgi Ármannssyni, bréf þann 25. janúar þar sem hann sagði frá því að Lilja hefði leitað til hans um að taka við embætti ráðuneytisstjóra og óskaði eftir því að forseti Alþingis samþykkti flutninginn, sem svo var gert þann 27. janúar.
Í bréfinu sagði Skúli Eggert að af lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga mætti ráða að starfsmannalögin giltu um starfsfólk Ríkisendurskoðunar, þar með talið um flutning á milli starfa. Reynt hefði á það tvisvar á árinu 2018, er tveir starfsmenn ríkisskattstjóra voru fluttir til Ríkisendurskoðunar á grundvelli flutningsákvæðis, þó ekki því sama og fjallar um flutning embættismanna.
Í tilkynningu frá Alþingi segir að líta beri „á samþykki Skúla Eggerts um flutning í embætti ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands sem ósk um starfslok með sambærilegum hætti og þegar embættismaður biðst lausnar frá embætti sínu.“
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, óskaði á þriðjudag eftir því að fá frekari skýringar frá bæði Lilju og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur á skipan og setningu þeirra á nýjum ráðuneytisstjórum, en í hinu nýja ráðuneyti háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar var Ásdís Halla Bragadóttir sett tímabundið í stöðuna.
Í tilfelli beggja ráðherra óskaði umboðsmaður eftir því að fá svör við bréfum sínum eigi síðar en þann 11. febrúar.