Flest bendir til þess að erlendir fjárfestar séu að meta áætlun stjórnvalda og Seðlabanka Íslands um losun fjármagnshafta trúverðuga, og flestar hagtölur benda til þess að hagkerfið sé að rétta úr kútnum og tilbúið fyrir þetta mikilvæga skref. Í augnablikinu virðist meiri hætta á því mikið fjármagn komi inn í landið, með þeim áhrifum að krónan geti styrkst mikið, fremur en að mikið flæði úr hagkerfinu af fjármunum í kjölfar losunar.
Þetta segir Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur, og forstöðumaður efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins, aðspurð um hvort krónan geti veikst eða styrkst, í kjölfar þess að áætlun um losun fjármagnshafta verður hrint í framkvæmd.
Ásdís tjáir sig um þetta álitaefni í áskriftarfréttaþjónustu Kjarnans á ensku, vikulegu fréttabréfi sem ber nafnið The Weekly Report, þar sem fjallað er um stöðu mála hér á landi, einkum í viðskiptum, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fréttaþjónustan er meðal annars sniðin að þörfum fjárfesta, stofnanna, sendiráða, íslenskra og erlendra fyrirtækja, greiningaraðila, hagsmunasamtaka og þeirra sem áhuga og hag hafa af því að fylgjast með gangi mála hér á landi.
Slitabú föllnu bankanna þriggja munu samtals greiða 334 milljarða króna í stöðugleikaframlag til ríkisins. Á fundi 2. október síðastliðinn ákváðu kröfuhafar í gamla Landsbankanum að greiða stöðugleikaframlag, sem verður um 14,4 milljarðar króna.
Á fundum í september samþykktu kröfuhafar Glitnis að greiða um 200 milljarða króna í stöðugleikaframlag og kröfuhafar Kaupþings að greiða um 120 milljarða. Lægra framlag Landsbankans til ríkissjóðs en annarra slitabúa skýrist fyrst og fremst af því að krónueign búsins er talsvert lægra en hinna tveggja.
Vandinn sem áætlun um losun hafta á að taka á, eins og honum var lýst af stjórnvöldum í kynningu. Eins og þarna sést, var reiknað með hærri fjárháðum í stöðugleikaframlag, en raunin mun verða.
Þessar ákvarðanir eru liður í áætlun um losun hafta, en auk þess er gert ráð fyrir að snjóhengja aflandskróna verði minnkuð eða henni eytt, með uppboðum, sem Seðlabanki Íslands annast. Markmiðið með þeirri aðgerð er að minnka þrýsting á krónuna. Lokamarkmiðið er síðan að losa um eða afnema fjármagnashöft, sem hafa verið lagaskylda frá því í nóvember 2008, þegar þeim var komið á til þess að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og hindra stjórnlaust fall íslensku krónunnar eftir hrun bankakerfisins, dagana 7. til 9. október 2008.