Sá möguleiki er enn fyrir hendi að af framkvæmd Sundabrautar verði ekki, að sögn Pawels Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar og formanns skipulags- og samgönguráðs. Enn eigi eftir að vinna svokallaða félagshagfræðilega greiningu og meta kosti og galla þeirra möguleika sem eru í boði, annars vegar brúar og hins vegar ganga, sem og að meta kosti og galla þess að Sundabraut verði hreinlega ekki lögð.
Nú í vikunni undirrituðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar. Í yfirlýsingunni segir að ríki og borg séu sammála um að næstu skref að aflokinni félagshagfræðilegri greiningu sé að undirbúa breytingar á aðalskipulagi borgarinnar sem feli í sér endanlegt leiðarval. „Mun það byggja á umhverfismati framkvæmdarinnar sem feli í sér samanburð valkosta og mat á líklegri þróun án framkvæmdarinnar.“
Bíða verði frekari greiningar
Spurður að því hvort mögulegt sé að Sundabraut komi ekki til framkvæmda segir Pawel: „Að sjálfsögðu, og ekki líta á þetta sem pólitíska yfirlýsingu.“ Hann bætir því við að það sé alltaf partur af vandaðri vinnu við félagshagfræðilega greiningu að líta til hins svokallaða núllkostar, það er að segja þeirra áhrifa sem hljótast af því að framkvæma ekki.
„Framkvæmd getur verið þjóðhagslega hagkvæm en ef það kemur í ljós að það er þjóðhagslega hagkvæmara að gera ekki neitt þá er það auðvitað skynsamasti kosturinn,“ segir Pawel. Hann segir að ríki og borg myndu þó ekki leggja í þessa vinnu ef lokatakmarkið væri að framkvæma ekki. „Við erum að sjálfsögðu að reyna að skoða málið mjög alvarlega en á meðan að formleg ákvörðun hefur ekki verið tekin þá er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að það verði ekki ráðist í þessa framkvæmd.“
Pawel segist ekki treysta sér til þess að meta hverjar líkurnar séu á því að hætt verði við lagningu Sundabrautar. Það sem á endanum muni ráða útfærslu Sundabrautar sé félagshagfræðilega greiningin og þá hvort að framkvæmdin verði metin þjóðhagslega hagkvæm. Hann segir að þar skipti einnig máli „hve þjóðhagslega hagkvæm hún er miðað við aðra hluti sem hægt er að nota peninginn í. Meðan ég hef ekkert í höndunum um þá niðurstöðu þá treysti ég mér ekki til þess að segja hverjar líkurnar eru.“
Augljóst að Sundabraut muni nýtast einkabílnum vel
Eitt af markmiðum Sundabrautar er að dreifa álagi í umferðinni og greiða þannig fyrir umferð þeirra sem kjósa að aka um á einkabíl. Að ráðast í framkvæmd sem greiðir þannig götu einkabílsins getur samræmst áherslum borgaryfirvalda í samgöngumálum að mati Pawels. „Það sem ég er sérstaklega ánægður með er að það eru mjög sterk fyrirheit um lagningu stíga fyrir gangandi og hjólandi meðfram Sundabrautinni allri, sem hefði aldrei orðið fyrir kannski 20 árum síðan, þá hefði mönnum aldrei dottið það í hug en að líta á þetta öðruvísi sem hreina einkabílaframkvæmd,“ segir Pawel.
Þá geti Sundabraut einnig verið til bóta fyrir almenningssamgöngur. „Fjölgun á tengipunktum er æskileg fyrir almenningssamgöngur líka. Það styttir leið almenningssamgangna ekki síður en einkabíla. Þannig að það samræmist því að því leyti. En auðvitað er þetta framkvæmd sem nýtist einkabílnum mjög vel, það er algjörlega augljóst,“ segir Pawel og bætir því við að það sem næst sé á dagskrá er Borgarlínan. Hún muni koma til framkvæmda fyrr heldur en Sundabraut og að það sé framkvæmd sem nýtist fyrst og fremst virkum ferðamátum.
„Við byggjum brýr!“
Þrátt fyrir að enn liggi ekki fyrir hvort og þá með hvaða hætti Sundabraut verði lögð þá hefur Framsóknarflokkurinn hafið birtingu á auglýsingum á samfélagsmiðlum með slagorðinu „Við byggjum brýr!“ svo slagorðið vísar í samgöngumannvirki sem óvíst er að muni rísa. Í auglýsingunni er sagt að náðst hafi samkomulag milli ríkis og borgar „um Sundabraut og Sundabrú“ eftir „áratuga reikistefnu“. Þá fylgir tilvitnun í Sigurð Inga auglýsingunni en í henni mærir hann kosti brúar sem sé ódýrari og arðsamari en göng.
Pawel segist ekki hafa neina skoðun á því að samgönguráðherra og hans flokkur sé farinn að auglýsa undir þessu slagorði. „Ég hef enga skoðun. Mér finnst bara jákvætt að fólk ræði samgöngumál á pólitískum vettvangi.“
Brú geti fylgt bæði kostir og gallar að mati Pawels. „Það eru kostir með brú sem eru þeir að hún getur nýst betur gangandi og hjólandi og hún getur verið ákveðið kennileiti í borgarmyndinni og ef hún kemur vel út getur hún verið mikil prýði. Ókosturinn eru næráhrif og við sem vinnum í sveitarstjórnarmálum vitum auðvitað að fólk í Reykjavík beggja vegna Kleppsvíkur hefur áhyggjur af umferðarmyndun sem er kannski örlítið meiri með brú heldur en göngum.“
Hann segist að lokum ætla að bíða eftir greiningu á áhrifum framkvæmdarinnar áður en hann gerir upp á milli brúar og ganga. „Það eru bara kostir og gallar við þetta hvort tveggja. Ég held að það sé bara eðlilegt að við bíðum örlítið betur eftir frekari greiningu áður en við úttölum okkur um með hvaða hætti og þá hvort þessi framkvæmd verði þá gerð.“