Dómarafélag Íslands mótmælir harðlega „ólögmætri ákvörðun fjármálaráðherra um einhliða og afturvirka skerðingu á kjörum dómara,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu. „Ákvörðunin er í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara og með henni er vegið að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Aðgerðirnar fela í sér atlögu framkvæmdavaldsins að dómsvaldinu sem ekki á sér hliðstæðu í íslenskri réttarsögu.“
Kjartan Björgvinsson, héraðsdómari og formaður stjórnar Dómarafélagsins, birtir yfirlýsinguna á Facebook-síðu sinni. „Sú undarlega ákvörðun blasti við dómurum landsins í morgun að laun þeirra voru lækkuð fyrirvaralaust,“ skrifar hann ennfremur. „Þessi lækkun mun vera í umboði fjármálaráðherra sem hefur boðað frekari og afturvirkar skerðingar á launum dómara.“
Hann segir aðferðina setja alla sem reki mál á hendur ríkinu í þá stöðu að eiga von á því „að framkvæmdavaldið geti lækkað laun dómara eftir eigin geðþótta. Þar með eru borgararnir sviptir réttlátri málsmeðferð og því að geta borið mál sín undir sjálfstæðan og óvilhallan dómstól í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu“.
Greint var frá því á vef Fjársýslu ríkisins í morgun að ráðherrar, alþingismenn, forseti Íslands, dómarar, saksóknarar, lögreglustjórnar, ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar ásamt ríkissáttasemjara hefðu alls fengið 105 milljónir króna í ofgreidd laun frá árinu 2019. Þar sagði að 260 einstaklingar, þar af 215 sem enn eru í starfi, verði krafðir um endurgreiðslu á ofgreiðslunni.
Þessi mistök eru sögð eiga rætur sínar að rekja aftur til þess þegar Kjararáð var lagt niður.
Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, spyr í ummælum við Facebook-færslu Kjartans hvort það sem við dómurunum blasti í morgun, líkt og Kjartan kemst að orði, eigi ekki við um alla embættismenn og kjörna fulltrúa sem fengu ofgreidd laun? „Sjálfsagt að ræða hvort það sé eðlilegt að taka þau til baka með þessum hætti en kannski dálítið vel í lagt að telja það ógn við réttarríkið.“
Kjartan svarar Höllu og bendir á að miðað við þær upplýsingar sem Dómarafélagið hafi séu þetta ekki ranglega greidd laun eins og þau ber að ákveða samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/2019 „heldur geðþóttabreyting framkvæmdavaldsins“. Tilkynning fjársýslunnar frá í dag sé því ekki rétt og „beinlínis villandi“.
Varðandi ákvarðanir ríkisins um launamál dómara og áhrif þeirra á sjálfstæði dómsvaldsins megi benda á dóm núverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu Róberts Spanó, sem hann kvað upp árið 2006 sem þá settur dómari. „Ríkið undi þeim dómi en í þessu máli er framkvæmdavaldið á enn tæpari grunni.“