Starfsfólk Eflingar hafa sent frá sér tilkynningu, þar sem fram kemur að það hafi ekki verið vilji eða meining starfsmannafundarins á föstudag að Sólveig Anna Jónsdóttir segði af sér sem formaður Eflingar.
Í tilkynningunni, sem trúnaðarmenn Eflingar senda út fyrir hönd starfsmanna, kemur jafnframt fram að starfsfólk hafi unnið af heilum hug samkvæmt þeirri stefnu sem forysta félagsins hafi sett síðustu ár og að fjöldi starfsmanna starfi hjá Eflingu vegna þeirra baráttu sem Sólveig hefur háð.
Þau vandamál sem starfsfólk hafi rætt hafi það viljað leysa í samvinnu við yfirmenn hjá stéttarfélaginu.
„Yfirlýsingin á föstudag var ekki sett fram í þeim tilgangi að lýsa vantrausti eða hrekja nokkurn úr starfi. Hún var hugsuð sem fyrsta skref á leið til lausnar,“ segir í tilkynningunni.
Kjarninn sagði frá innihaldi ályktunar starfsmannafundarins í gær, en í henni kom auk annars fram að starfsmenn teldu ósanngjarnt að stjórnendur veltu ábyrgð á innanhússmálum yfir á sig. Bæði formaður og framkvæmdastjóri Eflingar hafa tilkynnt um afsagnir sínar vegna ályktunarinnar.
Sólveig Anna hefur lýst því að hún hafi boðið starfsfólki upp á tvo kosti í upphafi þessa starfsmannafundar.
„Ég sagði við starfsfólk á þessum fundi að það væru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu. Það var ekki auðveld ákvörðun fyrir mig að stilla þessu upp svona en það er að mínu mati óhjákvæmilegt. Starf mitt með félagsfólki Eflingar, sem er réttlætisbarátta varðandi kjör og aðstæður verkafólks á vinnustöðum, hefur ekki trúverðugleika ef trúnaðarmenn starfsfólks Eflingar eru tilbúnir að fullyrða að ég reki hér vinnustað jafn slæman eða verri en þeir sem við höfum sjálf gagnrýnt,“ sagði Sólveig Anna í Facebook-færslu á sunnudagskvöld þar sem hún tilkynnti um afsögn sína.
Í ályktun starfsmannafundarins á föstudag var því lýst yfir að ástæða hefði verið fyrir upphaflegri ályktun trúnaðarmanna hjá Eflingu, sem send var á stjórnendur í sumar og hefur ekki enn litið dagsins ljós, og óskað var eftir því að stjórnendur myndu bregðast við henni.
„Við gerum kröfur á stjórnendur að þau viðurkenni, taki ábyrgð á og leysi vandann. Innan mánaðar óskum við eftir því að halda annan starfsmannafund án stjórnenda.
Starfsfólk Eflingar fer fram á að reglulegir starfsmannafundir, með og án viðveru stjórnenda, verði haldnir framvegis, og reglulegir fundir trúnaðarmanna með stjórnendum verði settir á laggirnar. Skilningur verði veittur á því að stór hluti starfsmanna hafi fundið og/eða finni til óöryggis í starfi og að það verði ekki leyst án opins samtals innan vinnustaðarins,“ sagði einnig í ályktun starfsmannafundarins frá því á föstudag.
Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér að neðan.
Í ljósi fréttaflutnings síðustu daga viljum við koma eftirfarandi á framfæri:
Það var ekki vilji eða meining starfsmannafundarins á föstudag að formaður félagsins segði af sér. Starfsfólk félagsins hefur unnið af heilum hug samkvæmt þeirri stefnu sem forysta félagsins hefur sett síðustu ár. Fjöldi starfsmanna félagsins starfar hér vegna þeirrar baráttu sem Sólveig hefur háð. Þau vandamál sem starfsfólk ræddi, vildi starfsfólk leysa í samvinnu við yfirmenn.
Yfirlýsingin á föstudag var ekki sett fram í þeim tilgangi að lýsa vantrausti eða hrekja nokkurn úr starfi. Hún var hugsuð sem fyrsta skref á leið til lausnar.
Starfsfólk er, sem endranær, að vinna fyrir félagsmenn með þeirra hag fyrir brjósti.
Fyrir hönd starfsfólks Eflingar,
trúnaðarmenn