Eldgos er hafið við Fagradalsfjall. Gos var staðfest í gegnum vefmyndavélar og gervitunglamyndir. Lítill órói sást á mælum í aðdraganda þess en fyrsta tilkynning barst Veðurstofunni klukkan 21.40.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Samkvæmt tilkynningu frá henni er fluglitakóði rauður. Flug Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til að kanna aðstæður. Samkvæmt því sem Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, sagði við fréttastofu RÚV, er gosið fjarri almannaleið.
Kortið hér að neðan sýnir líklega staðsetningu gossins miðað við nýjustu upplýsingar. Upptökin eru rétt austan Fagradalsfjalls samkvæmt mati Veðurstofunnar, líklega í Geldingadal.
Hægt er að horfa á streymi af svæðinu hér.
Hér er hægt að lesa umfjöllun um Fagradalsfjall og svæðið þar í kring.
Margir jarðskjálftar, sumir stórir, hafa orðið í námunda við fjallið undanfarið. Þar hefur óróapúlsinn mælst og þar hefur kvika verið að safnast fyrir rétt undir jarðskorpunni.
Slíkar jarðhræringar ættu þó ekki að koma okkur Íslendingum algjörlega í opna skjöldu. Reykjanesið allt er eldbrunnið, eins og sagt er, og ásýnd þess einkennist af hraunum, gígum, misgengjum og jarðhita. Um það liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna og gliðnun er að eiga sér stað með tilheyrandi jarðskjálftum oft og reglulega síðustu ár og áratugi.