Miðað við umfangið á eldgosinu í Geldingardal við Fagradalsfjall, eins og það er nú, virðist það ekki koma til með að ógna byggð eða mannvirkjum. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Þar segir hinsvegar að möguleiki sé á að gasmengun geti valdið óþægindum hjá fólki. „Gefin verður út spá um gasdreifingu frá eldgosinu á næstunni. Veðurspá gerir ráð fyrir nokkuð sterkum vindi og úrkomu sem mun draga úr áhrifum mögulegrar mengunar frá eldstöðvunum. Hér er hlekkur á skráningarsíðu vegna gasmengunar og hvetjum við fólk til að setja inn skráningu ef það telur sig verða vart við gasmengun.“
Fyrsta tilkynning um gosið barst Veðurstofunni klukkan 21.40 en það er talið hafa hafist um klukkan 20:45.
Gosið er talið lítið og gossprungan er talin vera um 500 til 1.000 metrar að lengd. Hraunið er talið vera innan við 1 ferkílómetri að stærð og lítil gosstrókavirkni er á svæðinu.
Tæplega eitt þúsund jarðskjálftar mældust í gær, sá stærsti 3,7 að stærð kl.05:48, við Reykjanestá. Um 160 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti, sá stærsti 2,3 að stærð, kl. 05:01. rétt austur af Sýlingafell.
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240. Þeir atburðir eru kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir gossvæðið í nótt. Á meðal þeirra sem voru um borð var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Magnað sjónarspil náttúrunnar sem blasti við í kvöld þegar ég flaug með Landhelgisgæslunni yfir eldgosið í Fagradalsfjalli. Gosið er enn sem komið er lítið en engu að síður mikilfenglegt, það er langt frá byggð og innviðum en gasmengun frá því gæti verið einhver. pic.twitter.com/8Yv4mkPacK
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) March 20, 2021
Hér að neðan má sjá myndband sem tekið var úr þyrlunni af gosinu:
Nýtt myndskeið af eldgosinu í Geldingardal, tekið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar. #Eldgos #Reykjanes pic.twitter.com/GAVzPKYxnT
— Icelandic Meteorological Office - IMO (@Vedurstofan) March 19, 2021