Elísabet II Englandsdrottning er látin, 96 ára að aldri. Elísabet hefur verið drottning í 70 ár, lengur en nokkur annar þjóðhöfðingi Bretlands. Breska konungsfjölskyldan greindi frá andláti drottningar síðdegis.
Elísabet Alexandra Mary Windsor fæddist í Mayfair í Lundúnum 21. apríl 1926. Elísabet var elsta barn foreldra sinna, Alberts hertoga, síðar Georgs sjötta, og Elísabetar Bowes-Lyon. Yngri systir Elísabetar hét Margrét Rose.
Aðeins einn þjóðhöfðingi var lengur við völd en hún í sögunni, Loðvík 14. Frakklandskonungur var fjögurra ára þegar hann varð konungur 1643. Hann ríkti í 72 ár.
The Queen died peacefully at Balmoral this afternoon.
— The Royal Family (@RoyalFamily) September 8, 2022
The King and The Queen Consort will remain at Balmoral this evening and will return to London tomorrow. pic.twitter.com/VfxpXro22W
Elísabet hefur dvalið í Balmoral-kastala í Skotlandi frá því í júlí. Hún sást síðast opinberlega þegar hún skipaði Liz Truss forsætisráðherra síðastliðinn þriðjudag. Sama dag hitti hún einnig Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra. Elísabet skipaði 15 forsætisráðherra í 70 ára valdatíð sinni en þetta var í fyrsta sinn sem valdaskiptin fór fram annars staðar en í Buckingham-höll.
Á miðvikudag frestaði hún fundi með ráðgjöfum sínum sem áformaður var í tengslum við ríkisstjórnarmyndun Truss. Í morgun gaf konungsfjölskyldan út yfirlýsingu þar sem greint var frá því að læknar fylgdust grannt með heilsu drottningar þar sem þeir höfðu vaxandi áhyggjur af heilsu hennar. Það færi þó vel um hana.
Heilsu Elísabetar hefur hrakað síðastliðin misseri og glímdi hún við skerta hreyfigetu síðustu mánuði. Þá greindist hún með COVID-19 í febrúar en einkennin voru væg, hún náði bata en tók takmarkaðan þátt í hátíðarhöldum í sumar í tilefni af 70 ára krýningarafmælinu.
Fljótlega eftir tilkynningu frá konungshöllunni um að læknar fylgdust með líðan drottningar fóru að berast fregnir af því að nánasta fjölskylda hennar væri á leiðinni til Balmoral-kastala.
Balmoral-kastali í skosku hálöndunum skipaði stóran sess í lífi drottningarinnar. Þar dvaldi hún í fjölskyldufríum sem ung stúlka þar sem hún og Margrét systir hennar léku sér saman. Filippus, eiginmaður drottningar til 73 ára, bað hennar í kastalanum. Filippus lést í apríl í fyrra, 99 ára að aldri.
Karl orðinn konungur
Börn Elísabetar og Filippusar eru fjögur. Karl, prins af Wales, er elstur og því ríkisarfi krúnunnar. Karl er 73 ára en var krýndur prinsinn af Wales árið 1969. Enginn hefur beðið jafn lengi eftir bresku krúnunni og hann en Karl hefur verið staðgengill móður sinnar í konunglegum erindagjörðum síðustu mánuði.
Karl er giftur Camillu, hertogaynjunni af Cornwall Hann varð konungur við fráfall móður sinnar og fær titilinn Karl III Englandskonungur. Camilla mun fá drottningaritil þegar Karl verður krýndur, en það var ósk Elísabetar.
Anne er næstelst barna Elísabetar og Filippusar og einkadóttir þeirra. Hún er gift Timothy Laurence og á tvö börn frá fyrra hjónabandi, Peter og Zara.
Andrew, hertoginn af Jórvík, er næstyngstur barna Elísabetar. Hann á tvær dætur með fyrrverandi eiginkonu sinni, Söruh Ferguson, Beatrice prinsessu og Eugenie prinsessu. Andrew lét af öllum konunglegum skyldum árið 2019 eftir að hann var sakaður um kynferðisbrot og fyrir tengsl hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein. Þá hefur hann afsalað sér öllum titlum sínum innan konungsfjölskyldunnar og breska hersins.
Edward, jarlinn af Wessex, er yngstur barna drottningar. Hann er giftur Sophie, hertogaynjunni af Wessex, og eiga þau tvö börn, Louise og James Mountbatten-Windsor.
Djúp sorg fyrir alla fjölskylduna
Breska hirðin hefur sent frá sér tilkynningu í nafni Karls konungs þar sem hann segir andlát móður sinnar djúpa sorg fyrir sig og fjölskylduna alla.
„Andlát ástkærrar móður minnar, hennar hátignar drottningarinnar, er stund mikillar sorgar fyrir mig og alla fjölskyldu mína.Við syrgjum innilega fráfall kærs þjóðhöfðingja og ástkærrar móður.“ Hann segir að á þessari sorgarstund og breytingaskeiði finni hann og fjölskyldan fyrir huggun vitandi að drottningin naut mikillar virðingar og væntumþykju um heim allan.
A statement from His Majesty The King: pic.twitter.com/AnBiyZCher
— The Royal Family (@RoyalFamily) September 8, 2022
Samúðarkveðjum og minningarorðum hefur rignt yfir konungsfjölskylduna á samfélagsmiðlum, meðal annars frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
The greatest monarch of our times has passed away. H.M. Queen Elizabeth II will always be remembered and admired for her dignity and selfless devotion. On behalf of all Icelanders I send deep condolences to the @RoyalFamily, the people of the United Kingdom and the Commonwealth.
— President of Iceland (@PresidentISL) September 8, 2022