Eliza Reid forsetafrú gagnrýnir myndatexta við mynd af sér sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Myndin sem um ræðir sýnir Elizu taka á móti Friðriki, krónprins Danmerkur, sem kom til Íslands í gær og snæddi kvöldverð á Bessastöðum.
Í myndatextanum er tilgreint að prinsinn hafi snætt með Guðna Th. Jóhannessyni, eiginmanni Elizu og forseta Íslands, og að með honum í för hafi verið utanríkisráðherra Danmerkur, Jeppe Kofod, og sendinefnd danskra fyrirtækja og hagsmunasamtaka. Þar er einnig tilgreint að ýmsir íslenskir og danskir áhrifamenn og -konur hafi setið kvöldverðinn en þótt Eliza sé sú sem krónprinsinn er að heilsa á myndinni er hún ekki nefnd á nafn.
[English follows] Í stuttu máli er myndatextinn á forsíðu blaðsins í dag svona: Einn karlmaður sem ber nafn kom í...
Posted by Eliza Reid on Wednesday, October 13, 2021
Í stöðuuppfærslu Elizu sem birtist í dag segir hún: „Í stuttu máli er myndatextinn á forsíðu blaðsins í dag svona: Einn karlmaður sem ber nafn kom í kvöldverð hjá öðrum karlmanni sem ber nafn. Með gestinum var þriðji karlmaðurinn sem heitir líka nafni [sést ekki á myndinni]. Meira var það ekki. #erukonurtil“.
Kvöldverðinn sóttu einnig Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands, Kirsten Geelan sendiherra Danmerkur á Íslandi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk fulltrúa úr dönsku og íslensku viðskiptalífi.