Sautján innanlandssmit greindust í landinu í gær. Fjórtán þeirra sem greindust voru í sóttkví. Fjórtán manns greindust í svokölluðum einkennasýnum, þ.e. hjá fólki sem fór í sýnatöku vegna einkenna, en fjórtán í handahófs- og sóttkvíarskimunum. 454 eru í sóttkví á landinu og 75 í einangrun – með virkt smit af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, samkvæmt upplýsingum á covid.is.
Fimm þeirra sem greindust með sjúkdóminn í gær eru á aldrinum 30-39 ára og eru nú 26 í þeim aldurshópi með virkt smit. Þá greindust ellefu börn á aldrinum 6-12 ára og eru nú 12 í þeim aldurshópi í einangrun með virkt smit.
Í gær voru tekin 1.557 sýni innanlands, langflest þeirra voru vegna einkenna sem fólk hafði.
Þrír greindust með virkt smit á landamærunum í gær.
Aðeins 19.887 einstaklingar á Íslandi eru fullbólusettir. Tæplega 18.255 til viðbótar hafa fengið fyrri skammt bóluefnis. Í uppfærðu bólusetningardagatali stjórnvalda er gengið út frá því að þjóðin verði fullbólusett í lok júlí í stað júníloka. Um 79 prósent 90 ára og eldri eru fullbólusettir nú þegar og um 74 prósent fólks á aldrinum 80-89 ára. Aðeins 8 prósent fólks aldrinum 70-79 er hins vegar fullbólusett.