Alls hafa 11 tilvik er varða ásakanir um kynferðislega áreitni, áreiti eða ofbeldi borist á borð stjórnenda Landsvirkjunar á síðustu fjórum árum.
Þetta kemur fram í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Kjarnans.
Fram kemur hjá fyrirtækinu að Landsvirkjun sé með skilgreinda viðbragðsáætlun fyrir greiningu og úrvinnslu mála af þessu tagi í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Viðbragðsáætlunin sé hluti af stjórnunarkerfi fyrirtækisins og endurskoðuð með reglubundnum hætti. Í starfsmannakönnunum komi enn fremur fram að starfsfólk þekki vel til viðbragðsáætlunarinnar.
Þremur málum lauk með starfslokum
„Á síðustu fjórum árum hefur komið til þess að stuðst hefur verið við framangreint verklag við úrlausn mála. Landsvirkjun er enn fremur í samstarfi við ytri sérfræðinga um málaflokkinn við úrvinnslu mála sem falla undir viðbragðsáætlunina. Stöðugt er unnið að fræðslu og forvörnum innan fyrirtækisins varðandi þennan málaflokk, m.a. með vinnu á áhættumati, reglulegri fræðslu um málaflokkinn og öruggri óháðri veitu/leið fyrir starfsfólk að leita til ef upp koma mál,“ segir í svarinu.
Enn fremur kemur fram að á síðastliðnum fjórum árum hafi verið stuðst við viðbragðsáætlunina í 11 tilvikum. „Málin sem um ræðir eru af ýmsu tagi og snúa bæði að starfsfólki, verktökum og samskiptum starfsfólks við ytri aðila. Tveimur málum lauk með sátt, tveimur með munnlegri áminningu, tveimur með skriflegri áminningu, þremur málum lauk með starfslokum og tvö mál sem sneru að ytri aðilum voru leyst með öðrum hætti.“