Elon Musk mun segja af sér sem forstjóri Twitter. Musk, einn ríkasti maður í heimi, setti óvænt könnun í gang á samfélagsmiðlinum í gær þar sem hann spurði hvort hann ætti að halda áfram að stýra Twitter. Þar sagðist hann ennfremur ætla að una niðurstöðu könnunarinnar.
Niðurstöðurnar voru afgerandi. Af þeim 17,5 milljónum sem greiddu atkvæði sögðu 57,5 prósent að Musk ætti að hætta sem forstjóri en 42,5 prósent að hann ætti að halda áfram.
Should I step down as head of Twitter? I will abide by the results of this poll.
— Elon Musk (@elonmusk) December 18, 2022
Standi Musk við fyrri yfirlýsingar má því búast við að hann hætti sem forstjóri í nánustu framtíð. Musk hafði reyndar sagt í síðasta mánuði að hann ætlaði sér, með tíð og tíma, að fá einhvern annan til að reka fyrirtækið. Fyrst vildi hann þó koma Twitter í „sterka stöðu“.
„Fuglinn er frjáls“
Musk greiddi 44 milljarða Bandaríkjadala fyrir Twitter, sem hann eignaðist og afskráði af markaði í lok október síðastliðins. Kaupin gengu ekki snurðulaust fyrri sig. Musk keypti fyrst hlutabréf í Twitter í upphafi árs og í byrjun apríl var hlutur hans í fyrirtækinu kominn yfir níu prósent og var hann þar með orðinn meðal stærstu hluthafa í Twitter og bauðst að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Hann afþakkaði boðið og sagði ljóst að samfélagsmiðillinn gæti hvorki dafnað né þjónað tilgangi sínum í núverandi formi.
Í tísti sem hann sendi frá sér greindi hann frá því að kaup hans á samfélagsmiðlinum hefðu verið sett á ís þar sem hann væri að bíða eftir gögnum sem gætu rökstutt fullyrðingar Twitter um að hlutfall gervimenna á samfélagsmiðlinum væri innan við fimm prósent.
Allt stefndi í að möguleg yfirtaka ríkasta manns heim yrði gerð upp fyrir dómstólum en í lok október gekk Musk loks frá kaupunum, degi áður en lokafrestur til þess rann út. „Fuglinn er frjáls!“ tísti Musk.
Nánast allt sem Musk hefur gert á Twitter er umdeilt
Yfirlýstur tilgangur Musk með kaupunum er að endurreisa málsfrelsið, sem honum finnst hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum, meðal annars vegna ritskoðunartilburða samfélagsmiðlarisa. Musk hefur líka verið opinskár með það að rekstrarmódel Twitter gangi ekki upp og að ráðast þurfi í nýjar róttækar tekjuöflunaraðgerðir til að tryggja tilvist fyrirtækisins til framtíðar.
Á meðal fyrstu verka hans sem eigandi Twitter var að segja upp mörgum helstu stjórnendum, tæplega helmingi starfsfólks og leggja mannréttindadeild fyrirtækisins niður.
Musk hefur líka sagt að hann ætli sér að endurskoða svokallað verification-kerfi, en það var sett á fót svo til dæmis blaðamenn gætu fengið blátt staðfestingartákn á eftir nafni sínu á Twitter sem sýndi að þeir væru þeir sem þeir sögðust vera. Musk ætlar að afnema það kerfi og rukka átta Bandaríkjadali á mánuði fyrir þá sem vilja slíkt staðfestingartákn.
Nýlega voru ýmsir blaðamenn sem höfðu verið að fjalla um Musk bannaðir frá Twitter eftir að hafa fjallað um Twitter-reikning sem fylgdist með flugferðum Musk. Þeim var síðan flestum hleypt aftur inn eftir að Musk framkvæmdi skoðanakönnun þar um.
Síðasta útspil Twitter undir stjórn Musk sem hefur valdið úlfúð er bann við því að hlekkja á aðra samfélagsmiðla.