Með því að heimila heimabruggun verður ógerlegt að fylgjast með heildardrykkju þjóðarinnar að því er fram kemur í umsögn Embættis landlæknis við lagafrumvarp um breytingu á áfengislögum sem myndi heimila heimabruggun. Embættið er mótfallið því að bann við heimabruggun verði aflétt og leggst gegn breytingum á áfengislögum. Undir umsögnina skrifa þeir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, og Rafn Magnús Jónsson verkefnisstjóri á sviði lýðheilsu.
Í umsögn embættisins segir að það hafi ítrekað undanfarin ár varað við og lagst gegn breytingum á fyrirkomulagi á sölu áfengis á Íslandi. „Takmarkað aðgengi að áfengi, sem meðal annars felur í sér takmarkað aðgengi með einkasölu ríkisins á áfengi, er áhrifarík leið til að draga úr skaðlegum áhrifum vegna notkunar áfengis. Ekki þarf að efast um skaðleg áhrif áfengis á einstaklinga og samfélög en á hverju ári látast rúmlega þrjár milljónir manna í heiminum af áfengistengdum orsökum,“ segir þar enn fremur.
Eitt af markmiðum Heimsáætlunar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sé að draga úr heildaráfengisnotkun þjóða en með breytingu á áfengislögum verður ekki hægt að fylgjast með heildardrykkju þjóðarinnar.
Frumvarpið flutt í fimmta sinn
Breytingin í lagafrumvarpinu sem um ræðir er fólgin í því að bruggun bjórs til einkaneyslu verði heimiluð, það er að segja að bruggun áfengis með gerjun verði leyfð. Bruggun áfengis til einkaneyslu með eimingu yrði því enn bönnuð. Þetta er í fimmta sinn sem frumvarpið er flutt en í upphaflegri mynd þess var ekki gerður greinarmunur á framleiðslu áfengis með gerjun og með eimingu. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata.
Í greinargerð frumvarpsins er áfengisneysla sögð rótgróinn hluti af íslenskri menningu. Framleiðsla þess, sala og neysla hafi verið háð miklum takmörkunum vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem áfengisneysla veldur bæði þeim sem neyta og samfélaginu í heild. Með frumvarpinu sé þó hvorki lögð til rýmkun á heimildum til dreifingar né breyting á sölufyrirkomulagi.
Þar segir einnig að á síðustu árum hafi margar nýjar tegundir íslensks bjórs rutt sér til rúms á síðustu árum og að forvitni ferðamanna á íslenskum bjór hafi aukist samhliða þeirri þróun. Sú þróun megi ekki byggja á lögbroti, eða eins og segir í greinargerð frumvarpsins: „Það skýtur skökku við að vaxtarbroddur íslenskrar bjórmenningar og sú jákvæða ímynd sem tekist hefur að afla íslenskum bjór hvað varðar gæði grundvallist í reynd á afbroti sem þung refsing liggur við.“