Það kemur Gunnari Guðna Tómassyni, framkvæmdastjóra vatnsafls hjá Landsvirkjun, „verulega á óvart“ að í aðsendri grein forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur á Vísi í gær skuli fjallað um vatnsbúskap og skerðingar Landsvirkjunar og „ýjað að því að til sé næg vinnslugeta í raforkukerfi landsmanna til að fullnægja orkuskiptum framtíðarinnar“.
Gunnar Guðni skrifar í grein sem birt var á Vísi í morgun, laugardag, að mikilvægt sé að vanda alla umræðu sem snýr að orkuöryggi þjóðarinnar og hvernig sé hægt að tryggja „nauðsynleg orkuskipti framtíðarinnar og jafnframt að byggja þá umræðu á staðreyndum“.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, skrifaði í grein sinni á Vísi að að stutta svarið við spurningunni um hvort rafmagnsskortur væri á Íslandi, væri já – annars þyrfti ekki að skerða afhendingu á rafmagni til stórnotenda. „Ástæðan er ekki sú að það vanti fleiri og stærri virkjanir heldur fyrst og fremst skortur á vatni til að keyra þær.“ Ekki væri nóg að byggja nýja vatnsaflsvirkjun eða reisa vindmyllur til að koma í veg fyrir skerðingu á rafmagni eða að olía sé notuð í fiskimjölsverksmiðjum. Rafmagnsvinnsla úr vatni eða vindi væri sveiflukennd. “Meðan við stýrum ekki veðrinu verða sveiflur í afköstum vatnsaflsvirkjana og vindmyllna.“
Að halda því fram að „virkja þurfi ósköpin öll og virkja strax til að við eigum rafmagn á bílana okkar“ hafi verið jafn rangt á meðan þrengingar voru í efnahagslífinu vegna heimsfaraldurs og það væri nú.
Gunnar Guðni bendir á að Landsvirkjun vinni og selji yfir 70 prósent af raforku á Íslandi og reki stærsta vinnslukerfi landsins, kerfi sem „forstjóri OR virðist hafa miklar skoðanir á hvernig hægt sé að reka“.
Staðreyndin sé sú að orkuvinnslukerfi Landsvirkjunar er full selt um þessar mundir. Viðskiptavinir hafi hins vegar ákveðinn sveigjanleika, mismikinn eftir samningum, til að fullnýta ekki samningana þegar illa árar hjá þeim. Á móti hefur Landsvirkjun sveigjanleika til skerðinga þegar illa árar í vatnsbúskapnum. „Orku, sem er þegar samningsbundin viðskiptavinum, er ekki hægt að nýta í orkuskipti framtíðarinnar.“
Mikil eftirspurn er nú eftir raforku í landinu og hefur hún vaxið mjög hratt undanfarnar vikur og mánuði. „Með þessari miklu eftirspurn eftir raforku er vinnslukerfi Landsvirkjunar fullselt og í raun er veruleg umframeftirspurn eftir raforku um þessar mundir sem ekki er hægt að mæta,“ skrifar Gunnar. „Þetta á við jafnvel þótt vatnsbúskapur væri eins og í meðalári og vinnslugeta Landsvirkjunar væri óskert.“
Við núverandi aðstæður sé því engin laus orka í vinnslukerfi Landsvirkjunar. „Við hjá Landsvirkjun getum ekki tjáð okkur um orkuvinnslu annarra fyrirtækja á raforkumarkaði á Íslandi. En ef lausa orku er að finna á raforkumarkaðnum þá er hana að finna hjá einhverjum öðrum aðila en Landsvirkjun.“