Þrátt fyrir að forsvarsmenn trúfélagsins Zuism sæti ákæru fyrir að svíkja sóknargjöld úr ríkissjóði og nota þau í eigin þágu um nokkurra ára skeið eru enn 765 manns í trúfélaginu, sem er þó það trúfélag sem minnkað hefur mest frá því í desember 2020, samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðskrá.
Zúistar eru nú 151 færri en þeir voru þá. Trúfélagið, ef slíkt má kalla, er þó enn það tíunda stærsta hér á landi, þegar horft er til fjölda meðlima. Þegar meðlimir í Zuism voru flestir fór fjöldi þeirra yfir þrjú þúsund. Það var í upphafi árs 2016, en skömmu áður hafði hópur fólks tekið yfir trúfélagið, sem núverandi forsvarsmenn stofnuðu árið 2013.
Hópurinn lofaði meðlimum Zuism því að sóknargjöld þeirra yrðu endurgreidd, í gjörningi sem var ádeila á núverandi trúfélagskerfi og innheimtu ríkisins á sóknargjöldum. Þessi hópur, sem kallaði sig öldungaráð Zúista, missti þó trúfélagið úr sínum höndum og aftur til bræðranna sem stofnuðu það – Einars og Ágústs Arnars Ágústssona, sem eru þekktir sem Kickstarter-bræður.
Zuism fékk 84,7 milljónir frá ríkinu
Tugmilljónir streymdu síðan í sjóði félagsins úr ríkissjóði næstu árin vegna þess fjölda félaga sem enn voru í trúfélaginu. Ríkissjóður greiddi 36 sinnum inn á reiknings félagsins í Arion banka frá október 2017 til janúar 2019 vegna sóknargjalda áranna 2016 til 2018 – alls 84,7 milljónir króna.
Í ákæru héraðssaksóknara gagnvart bræðrunum, trúfélaginu og tveimur öðrum félögum í eigu bræðranna, sem þingfest var í desember síðastliðnum, segir að þeir hafi blekkt íslenska ríkið til þess að fá fjármuni með því að þykjast reka trúarlega starfsemi, en engin trúariðkun hafi farið fram í félaginu.
Þeir eru einnig ákærðir fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa flutt og nýtt peningana sem Zuism fékk úr ríkissjóði, meðal annars til í að taka þátt í hlutafjárútboðum Heimavalla og Arion banka og í ýmsa daglega neyslu eftir að fé hafði verið flutt inn á bankareikninga bræðranna eða félaga í þeirra eigu.
Bræðurnir reyndu að fá ákæru héraðssaksóknara vísað frá, en þeirri kröfu var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir rúmum mánuði síðan.
Slétt 62 prósent í Þjóðkirkjunni
Samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár, um skráningu í trúfélög 1. maí, fækkaði um 88 manns í Þjóðkirkjunni frá því 1. desember 2020. Nú standa slétt 62 prósent landsmanna innan Þjóðkirkjunnar, alls 229.629 einstaklingar. Hlutfall landsmanna í kirkjunni lækkar því um 0,3 prósentustig á síðustu 5 mánuðum.
15,2 prósent eru í öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum. Þeirra fjölmennust eru Kaþólska kirkjan með 14.671 meðlimi og Fríkirkjan í Reykjavík með 9.996 meðlimi. Félögum í Siðmennt og Ásatrúarfélaginu hefur fjölgað mest frá því í byrjun desember, eða um 143 og 144 meðlimi.
Nýtt trúfélag, Islamic Cultural Centre of Iceland (ICCI), var skráð í síðasta mánuði, samkvæmt tilkynningu Þjóðskrár. Þar eru nú 26 meðlimir.
15,1 prósent landsmanna eru með ótilgreinda trúfélagaskráningu og 7,7 prósent eru skráð utan trú- og lífsskoðunarfélaga.