Kína segjast hafa dregið sig í hlé í Suður-Kínahafi þar sem Kínverjar hafa staðið í uppbyggingu á umdeildum eyjaklasa. Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, tilkynnti þetta á fundi ríkjanna í Suðaustur Asíu (ASEAN) í Kúala Lúmpúr í gær. Í dag hófust svo sáttaviðræður um svæðið en þær strönduðu á orðalagi og skilgreiningu svæðisins.
Löndin sem gera tilkall til Spratly-eyjaklasans eru Kína, Tævan, Víetnam, Filipseyjar, Brúnei og Malasía. Kína sagði í júní að þeir myndu bráðlega hætta framkvæmdum við manngerðar eyjar á grynningum í eyjaklasanum og hvetja löndin sem deila til að hraða samningaviðræðum um svæðið.
Spratly-eyjaklasinn er umdeildur því þarna býr enginn þjóðflokkur innfæddra sem gerir tilkall til eyjanna. Hins vegar er talið að þarna leynist miklar olíu- og gaslindir og væn fiskimið sem gætu reynst verðmæt.
Spratly samanstendur af smáum eyjum, skerjum, kóralrifjum og hættulegum grynningum fyrir skip. Á um það bil 45 eyjum hafa verið byggð hernarðarmannvirki landanna sem deila. Um svæðið fara margar mikilvægar flutningaleiðir milli þessara landa sem deila.
Charles Jose, utanríkisráðherra Filipseyja, segir hins vegar Kínverja vilja snúa þessum tímamótum upp í friðarumleitanir því nú væri fyrsta fasa framkvæmdanna þeirra lokið. „Á sama tíma er Kína að taka næsta skref sem er uppbygging mannvirkja á þessum manngerðu eyjum. Filipseyjar telja þessar aðgerðir Kínverja valda ójafnvægi.“
Á fundi ASEAN-ríkjanna hefur fátt annað komist að en umræður um skilgreiningu lögsögu landanna umhverfis eyjaklasann. Fundurinn hefur tafist töluvert vegna þessa en honum átti að ljúka í gær. Tafirnar eru sagðar til merkis um djúpan ágreining sem enn ríkir um þetta svæði, þrátt fyrir útspil Kínverja.