Vikur. Móberg. Sandur.
Íslensk jarðefni eiga upp á pallborðið á mörkuðum í Evrópu þessi misserin ef marka má ásókn í vinnslu þeirra og útflutningsáform. Fyrirtækið LavaConcept Iceland ehf. hefur kynnt matsáætlun sína um efnistöku í Höfðafjöru, fjörunni rétt sunnan Hjörleifshöfða og bætist þar með í hóp tveggja annarra aðila sem áforma mikla námuvinnslu, annars vegar EP Power Minerals, sem vill vinna vikur skammt frá Hafursey á Mýrdalssandi, og hins vegar Eden Mining sem vill vinna móberg úr Litla-Sandfelli í Þrengslum þar til það verður að engu orðið. Öll þessi þrjú verkefni eiga það sameiginlegt að flytja á jarðefnin úr landi að mestu og að þeim fylgja flutningar, mismiklir þó, milli námu og Þorlákshafnar.
Reyndar er það svo að verkefnin tvö við Vík tengjast því forsvarsmenn LavaConcept Iceland ehf., þeir Victor Berg Guðmundsson, Páll Tómasson og Jóhann Vignir Hróbjartsson, eru eigendur að jörðinni Hjörleifshöfða. Jörðin er hins vegar í meirihluta eigu (90 prósent) tékkneska fyrirtækisins EP Power Minerals sem hefur uppi áform um vikurnámið við Hafursey. Bæði Hafursey og Hjörleifshöfði eru innan þessarar jarðar.
Sandvinnsla LavaConcept Iceland ehf. yrði þó miklum mun minni í sniðum en áformað vikurnám. Við Hafursey stendur til að vinna hálfa milljón tonna á ári næstu hundrað árin eða svo og flytja beint til Þorlákshafnar. Úr Höfðafjöru er ætlunin að vinna 50 þúsund tonn á ári í fimmtán ár. Sandinn, sem kom upp í Kötlugosinu árið 1918, á að flytja til Þýskalands þar sem hann yrði notaður til sandblásturs. Samningar við kaupanda liggja þegar fyrir, að því er segir í matsáætluninni, sem verkfræðistofan Efla vinnur fyrir LavaConcept Iceland ehf.
Matsáætlun er með fyrstu skrefum sem tekin eru við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Í matsáætlun er gerð grein fyrir hvernig mati á umhverfisáhrifum verður háttað. Allir geta sent inn athugasemdir við matsáætlunina og það er einnig hægt á síðari stigum er umhverfismatsskýrsla er kynnt.
Fólk í Mýrdalshreppi hefur lengi haft áform um að nýta sandinn, sem þar er að finna mjög víða, til atvinnuuppbyggingar. Á heimasíðu LavaConsept er rakin sagan á bak við þetta tiltekna verkefni sem rekja má allt aftur til ársins 2008. Þá varð lítið úr hugmyndunum vegna bankahruns en tíminn hefur síðustu ár verið nýttur til að rannsaka efnið og koma á viðskiptasamböndum.
Skolað og sigtað
Sandinn á að taka í fjöruborði Höfðafjöru syðst á Kötlutanga. Hann yrði svo skolaður og sigtaður á vinnslusvæði LavaConcept við Uxafótarlæk við Víkurfjöru, áður en hann yrði fluttur landleiðina til Þorlákshafnar. Þaðan færi hann svo með skipi til meginlands Evrópu. Sandurinn í fjörunni er talin henta mjög vel í verkefnið, það segir framkvæmdaaðili margra ára rannsóknir hafa sýnt.
„Efnið er tekið úr fjöruborðinu og sjórinn fyllir því fljótt upp í þær holur sem myndast við efnistökuna, en sandurinn meðfram ströndinni er á stöðugri hreyfingu,“ segir í matsáætluninni. Í heildina yrði efnistökusvæðið 30 hektarar að stærð en einungis yrði unnið á litlum hluta þess í einu.
Hjörleifshöfði er rétt við þjóðveg 1 og vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Efnistakan yrði í um 2,5-3 kílómetra fjarlægð frá honum. Framkvæmdaaðili segir sjaldgæft að ferðamenn fari í fjöruna sjálfa, ekki nema þá helst til að aka utan vega í sandinum. Almennt sé ekki mikil útivist í Höfðafjöru en þó er þar stundað mótorsport og í tillögu að nýju aðalskipulagi Mýrdalshrepps er gert ráð fyrir því að á sandinum verði svokölluð endurobraut fyrir mótorhjól og skotæfingarsvæði.
Í vinnulotum yrði ein grafa/hjólaskófla á staðnum. Áætlað er að 2-4 vörubílar (búkollur) flytji efni úr fjörunni á vinnslusvæðið jafnóðum.
Eftir að efnið er grófharpað, skolað og sigtað á vinnslusvæðinu yrði því ekið um 160 kílómetra leið á vörubílum í gamla grjótnámu í landi Hrauns, skammt utan Þorlákshafnar þar sem það yrði geymt fram að útskipun.
Miðað við að hver vörubíll taki um 27,5 tonn af efni í hverri ferð, og efni yrði flutt 300 daga á ári, þá yrðu farnar um sex ferðir á dag með fullfermi frá Vík til Þorlákshafnar. „Þessi umferð er mun minni í sniðum en umferð tengd ferðaþjónustu og hefðbundnum vöruflutningum sem fer sömu leið,“ segir framkvæmdaaðili og telur því ekki sérstaka þörf á að skoða hljóðvist og loftgæði í þéttbýli á leiðinni.
Kötlutangi myndaðist í Kötluhlaupi árið 1918 en síðan þá hefur hann stöðugt verið að ganga til baka. Hyggst framkvæmdaaðili „nýta sandinn og gera verðmæti úr honum áður en hann hverfur endanlega,“ segir í matsáætluninni.
En af hverju að taka sandinn á nákvæmlega þessum stað – í Höfðafjöru?
Í skýrslunni kemur fram að ekki sé hægt að fara lengra til vesturs með efnistöku af þessari stærðargráðu þó að aðgengi sé betra þar sökum hættu á auknu landrofi í nágrenni þéttbýlisins í Vík. Sérfræðingar Vegagerðarinnar hafi sagt að ef farið væri a.m.k. 4-5 km austur fyrir Vík þá myndi efnistaka hafa óveruleg áhrif á landrof. Höfðafjara er um 11 kílómetra austan við Vík.
Í umhverfismatinu er reiknað með að allt að 850.000 rúmmetrar af sandi verði fjarlægðir á 15 árum. „Það er þó einungis brot af jarðmynduninni, en Kötluhlaupið 1918 er eitt og sér talið hafa borið fram allt að 1.200.000.000 m3 af efni,“ segir í matsáætluninni. Berggrunnurinn á Mýrdalssandi er á um 10-25 metra dýpi undir sjávarmáli „og því liggur ofan á honum allt að 100 metra þykkt lag af sandi, vikri og öðrum framburði“.