Enn liggur ekki fyrir niðurstaða í rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum samkeppnislagabrotum Mjólkursamsölunnar gegn mjólkurbúinu Kú. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísaði málinu til Samkeppniseftirlitsins í desember, og eftirlitið hét því þá að hraða rannsókn sinni.
Félag atvinnurekenda hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi vegna málsins og ítrekað fyrri áskorun sýna um að málinu verði hraðað eins og hægt er. Ítrekunin var send vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvara um hækkun á verði hrámjólkur til úrvinnslu. Mjólkurbúið Kú telur þá ákvörðun sérstaklega til þess fallna að ýta keppinauti MS af markaði og mun kæra ákvörðunina til Samkeppniseftirlitsins líka.
„Þetta er langur tími. Við höfum lagt fram tillögur um hvernig megi gera þetta samkeppnisréttarkerfi skilvirkara, því að sérstaklega fyrir svona lítil fyrirtæki sem eiga í höggi við stóra keppinauta með miklar bjargir, sem hafa efni á færum lögfræðingum og svo framvegis, þá bara er mjög erfitt að bíða svona lengi eftir niðurstöðum í máli. Sum smærri fyrirtæki bara hafa ekki úthald í það, þá vinnur kerfið gegn tilgangi sínum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í samtali við Kjarnann. „Þetta gerir smærri keppinautum rosalega erfitt fyrir.“
Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna fyrir samkeppnisbrot gegn mjólkurbúinu Kú í september í fyrra. MS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja samkeppnisaðilum Kú, sem eru tengdir MS, hrámjólk á 17 prósent lægra verði en því sem Kú bauðst.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í desember að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði. MS lagði samninginn ekki fram fyrr en við málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað beðið um skýringar og gögn frá fyrirtækinu.
Áfrýjunarnefndin taldi að henni væri því skylt að vísa málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins. Áfrýjunarnefndin tók enga efnislega afstöðu til málsins heldur taldi að ekki hefðu komið fram fullnægandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins fyrir nefndinni. Þess vegna ætti Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið aftur, með hliðsjón af umræddum samningi, og komast að nýrri niðurstöðu um hvort MS hefði brotið samkeppnislög.
Þetta var í desember, og í svari við fyrirspurn Kjarnans sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að eftirlitið myndi leggja áherslu á að hraða rannsókn sinni. „Fyrirfram er ekki hægt að fullyrða hvenær henni [rannsókninni] lýkur, enda geta ýmis atvik hafa áhrif á meðferð málsins, þar á meðal umfang og eðli þeirra upplýsinga sem aflað verður og viðbrögð aðila,“ sagði hann þá.
Kjarninn hefur sent fyrirspurn til Samkeppniseftirlitsins um það hvernig málinu vindur fram og hvað veldur því að rannsókninni er ekki lokið. Svar hefur ekki borist.