Ríkisendurskoðun reiknar enn með því að skila forseta Alþingis skýrslu um sölu á 22,5 prósenta hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka í þessum mánuði, en þetta kemur fram í skriflegu svari Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda við fyrirspurn Kjarnans.
Um er að ræða stjórnsýsluúttekt á sölunni, sem fór fram fór með lokuðu útboði til alls 207 fjárfesta, sem greiddu ríkinu 52,65 milljarða króna fyrir hlutinn í bankanum.
Guðmundur Björgvin segir í svari til Kjarnans að það ráðist af meðförum Alþingis hvenær skýrslan verði birt en til stendur að þing verði kallað saman til þess að fara yfir málið þegar skýrslan lendir og þingmenn þá kallaðir úr sumarfríum sínum, sem að öðrum kosti myndu vara til 13. september.
Fyrst átti verkið að klárast í lok júní
Eins og aðrar skýrslur frá Ríkisendurskoðun verður úttektin tekin til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Upphaflega átti skýrslugerðin að klárast í júní, en síðar var boðað að skýrslan yrði ekki tilbúin fyrr en seint í júlímánuði.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra bað formlega um að Ríkisendurskoðun myndi ráðast í verkið þann 7. apríl síðastliðinn. Í bréfi ráðuneytisins þar sem bónin um skýrslugerðina var sett fram kom fram að umræða hefði skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar. Ríkisendurskoðun ákvað daginn eftir að verða við beiðninni.
Í bréfi sem stofnunin sendi til Bjarna vegna þess sagði að „áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar hefur ekki farið fram en hún mun verða endurskoðuð eftir því sem úttektinni vindur fram. Í því sambandi er ítrekað að skv. 3. mgr. 1. gr. framangreindra laga er ríkisendurskoðandi sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Stefnt er að því að niðurstaða úttektarinnar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði 2022.“
Á þessum tímapunkti átti Alþingi enn eftir að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda, en Guðmundur Björgvin var starfandi ríkisendurskoðandi á þessum tíma og var að endingu kosinn nýr ríkisendurskoðandi þann 9. júní.
73 prósent landsmanna töldu að skipa þyrfti rannsóknarnefnd Alþingis
Sú ákvörðun Bjarna Benediktssonar að fela Ríkisendurskoðun að gera úttekt á bankasölunni var harðlega gagnrýnd af sumum stjórnarandstöðuþingmönnum, sem vildu láta skipa rannsóknarnefnd Alþingis með víðtækari heimildir til að fara ofan í saumana á sölunni.
Í grein sem Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, birti á Kjarnanum í apríl sagði meðal annars: „Það má vel vera að Ríkisendurskoðun sé ágætlega til þess fallin að yfirfara ákveðna þætti er varða söluna á Íslandsbanka. En ef ætlunin er að rannsaka atburðina frá mörgum hliðum, lagalegum, siðferðilegum, pólitískum og stjórnsýslulegum, og „velta við öllum steinum“ eins og jafnvel stjórnarliðar kalla eftir er hins vegar ljóst að rannsóknarheimildir Ríkisendurskoðunar duga skammt og verkefnið fellur beinlínis illa að starfssviði stofnunarinnar. Þá er óheppilegt að úttektin fari fram samkvæmt sérstakri beiðni frá fjármála- og efnahagsráðherra, sama manni og hefur forgöngu um bankasöluna sem er til athugunar.“
Í könnun sem Gallup birti seint í apríl kom fram að 73,6 prósent landsmanna teldu að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent taldi nægjanlegt að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölunni.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr þegar kom að þessu, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði til. Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna var á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þyrfti rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka voru nær allir á því að rannsóknarnefnd væri nauðsynleg.