Gengi krónunnar hefur styrkst gagnvart Bandaríkjadal og evru að undanförnu, nemur styrkingin um sex prósentum sé horft yfir tímabil síðustu þriggja mánaða. Í byrjun júlí kostaði Bandaríkjadalur tæplega 137 krónur en nú kostar hann rúmlega 124 krónur, samkvæmt upplýsingum af gjaldeyrisborði Keldunnar. Gengi krónunnar hefur einnig styrkst nokkuð gagnvart evru upp á síðkastið, en evran kostar nú 142 krónur en hefur á þessu ári farið hæst í 155 krónur, í byrjun febrúar.
Seðlabanki Íslands hefur beitt sér nokkuð á gjaldeyrismarkaði á þessu ári, með það að markmiði að halda gengi krónunnar á æskilegum stað fyrir hagkerfið. Það hefur falist í því að halda genginu nægilega veiku með gjaldeyriskaupum og inngripum, og láta það ekki styrkjast of mikið, þar sem slíkt getur grafið undan útflutningsgeira hagkerfisins og valdið þannig ójafnvægi.
Meðal ástæðna þess að mikið innflæði gjaldeyris hefur verið inn í hagkerfið, er gott gengi ferðaþjónustunnar, en gert er ráð fyrir að gjaldeyristekjur vegna ferðaþjónustu geti orðið um 350 milljarðar á þessu ári.
„Við erum að leggjast jafnt þungt ef ekki þyngra en áður, en það er bara meiri straumur,“ sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, um gjaldeyriskaup seðlabankans, á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunar Peningastefnunefndar, 30. september síðastliðinn. Hann sagði bankann vilja draga úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði en ekki eyða þeim.