Erlendir gestir Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar í Reykjavík eyddu samtals um 1,6 milljörðum króna í neyslu á hátíðinni árið 2014. Ferða- gisti- og miðakostnaður lækkaði í heild milli ára en erlendum gestum fjölgaði frá fyrra ári og gistinætur voru fleiri. Aukning á neyslu milli ára nam um 420 milljónum króna. Þetta sýna niðurstöður könnunar ÚTÓN, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Síðastliðin fjögur ár hefur ÚTÓN gert könnun á eyðslu erlendra gesta á Iceland Airwaves. Helstu niðurstöður fyrir síðasta ár eru þær að gestir eyddu meiru en áður og gistu lengur en síðustu ár.
„Einnig var reiknaður út tekjumargfaldari, en í hagfræði er hann notaður til að reikna út heildaráhrif þess þegar ný innspýting fjármagns kemur inn í lokað hagkerfi. Útreikningar könnunarinnar (tekjumargfaldarinn) eru byggðir á ritgerð Ævars Rafns Hafþórssonar til BA prófs í Hagfræði árið 2013: Hagræn áhrif Iceland Airwaves 2012. Margföldunaráhrif.
Þegar tekið er til greina margföldunaráhrif eru heildartekjur af erlendum gestum innan Reykjavíkur á bilinu 2,7 til tæplega 3 milljarðar króna. Þessum fjármunum er að mestu varið í veitingastaði og kaffihús, þar á eftir í afþreyingu ýmiskonar og í þriðja lagi í verslun. Tekið skal fram að eyðsla utan höfuðborgarsvæðisins og eyðsla íslenskra gesta er ekki tekin með í reikninginn,“ segir í tilkynningu frá ÚTÓN. Hér má lesa niðurstöður könnunarinnar í heild.