Pétur Hafsteinn Pálsson, forstjóri Vísis og stærsti einstaki eigandi útgerðarinnar áður en hún var seld til Síldarvinnslunnar í sumar, segir gagnrýni á söluna ekki hafa komið á óvart. Það sé þó mikilvægt að hafa í huga að það skipti máli hver kaupandinn er. Hann sé Síldarvinnslan en ekki Samherji, þótt Samherji sé stærsti einstaki hluthafinn með 32,64 prósent hlut í Síldarvinnslunni. „Ef félagið héti Samherji, sem dæmi, væru miklar líkur á þeir gætu tekið stóran hluta af þessum bolfiski inn í vinnslurnar sínar á Dalvík og Akureyri. Síldarvinnslan er ekki með neina slíka framleiðslugetu. En við erum líka mjög ánægð með það að kjölfestufjárfestarnir í Síldarvinnslunni séu Samherji, Gjögursfólkið, fólk og fyrirtæki sem við þekkjum mjög vel að góðu einu og lífeyrissjóðir. Samsetning hluthafa er mjög flott.“
Það sé samt ekki Samherji sem sé að kaupa. „Þetta er almenningsfyrirtæki sem er að kaupa því það vantar það sem við höfum.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Pétur sem var birt í aukablaðinu 200 mílum sem fylgdi með Morgunblaðinu um liðna helgi.
Helstu verðmætin aflaheimildir
Tilkynnt var um sölu Vísis, sem er í eigu sex systkina, í júlí og söluverðið þá sagt 31 milljarðar króna. Það skiptist í yfirtöku skulda upp á ellefu milljarða króna, sex milljarða króna greiðslu í reiðufé og 14 milljarða króna sem greiðast með hlutabréfum. Samkeppniseftirlitið þarf að samþykkja söluna áður en hún verður frágengin en frá því að greint var frá áformunum hafa hlutabréf í Síldarvinnslunni hækkað umtalsvert í verði, og verðmiðinn því sömuleiðis hækkað, alls um rúmlega fjórðung. Virði þeirra hlutabréfa sem systkinahópurinn sem á nú Vísi fær sem afgjald fyrir fyrirtækið hefur því þegar aukist um 3,7 milljarða króna, upp í 17,7 milljarð króna.
Helstu bókfærðu eignir Vísis utan fastafjármunir eru aflaheimildir sem metnar voru á 90,9 milljónir evra, alls um 13,4 milljarða króna á árslokagengi síðasta árs. Aflaheimildir eru nær undantekningarlaust vanmetnar í reikningum sjávarútvegsfyrirtækja, en fyrir viðskiptin var heildarupplausnarvirði úthlutaðs kvóta á Íslandi áætlað um 1.200 milljarðar króna, miðað við kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Bergi Huginn í fyrra. Kaupin á Vísi eru langt undir því verði.
Upplausnarvirðið gæti mögulega hafa náð 60 milljörðum
Pétur segir í viðtalinu að söluverðið sé sanngjarnt. Markaðurinn verðmeti ekki sjávarútvegsfyrirtæki á upplausnarverði. „Það sjá allir að þetta eru háar upphæðir þótt megnið hafi verið greitt með hlutabréfum. Við vissum að við myndum fá gagnrýni frá þeim sem myndu segja að þetta væri allt of mikið og frá þeim sem myndu segja að þetta væri allt of lítið. [...] Að ræða um eitthvað jaðarverð á kvóta er bara rugl. Það vita það allir að rekstrarvirði kvóta er kannski um helmingur af því sem hann selst á í dag – s.s. raunverulegt virði. Við erum að fá sanngjarnt verð.“
Pétur viðurkennir þó í viðtalinu að upplausnarvirði Vísis gæti mögulega náð 60 milljörðum króna en að því myndi líka fylgja kostnaður, til dæmis skattgreiðslur, auk þess sem það séu ekki einungis peningar sem skipta máli. „Það var markmið okkar að starfsmennirnir og allir sem hafa einhverra hagsmuna að gæta af starfseminni fyllist frekar tilhlökkun en kvíða vegna sölunnar – að þessar 200 til 250 fjölskyldur plús samfélagið okkar beri ekki skaða af. Á það er ekki hægt að setja verðmiða.“
Gagnrýni stjórnmálamanna einkennileg
Í viðtalinu við 200 mílur segir Pétur gagnrýnina sem fram hafi komið á söluna ekki hafa verið ósanngjarna né óvægna, en ýmislegt hafi þó komið honum á óvart. „Einkennilegast í þessu hefur verið að stjórnmálamenn, sem hafa talað vel um opinbera hlutabréfamarkaðinn, hafi gagnrýnt þetta af eins miklum krafti og raun ber vitni. Tali þannig að það, að fjölskyldufyrirtæki sameinist félagi sem skráð er á markaði og opni þannig fyrir að almenningur geti farið að kaupa í fyrirtækinu og orðið þátttakendur í rekstrinum, skuli vera forsenda umræðu um hækkun gjalda á sjávarútvegsfyrirtæki, sem þýðir að almenningur fái minna út úr sinni fjárfestingu.“
Á meðal þeirra sem gagnrýndi kaupin var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sem sagði við fjölmiðla eftir að kaupin voru kunngerð að hún hefði áhyggjur af þessari miklu samþjöppun í sjávarútvegi. „Það er mín skoðun að það þurfi að endurskoða það regluverk, bæði hvað varðar kvótaþakið og tengda eigendur […] Það þarf að ræða gjaldtökuna, ekki síst þegar við sjáum þennan tilflutning á auðmagni milli aðila.“
Katrín sagði þetta vera grundvallarástæðan fyrir því að svo margir séu ósáttir við kvótakerfið, en í könnun sem Gallup gerði í fyrrahaust kom fram að 77 prósent aðspurðra styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Einungis 7,1 prósent sögðust andvígt slíkri kerfisbreytingu. Aukin samþjöppun muni ekki auka sátt um greinina að mati forsætisráðherra.
Blokk með næstum fjórðung kvótans
Verði kaupin á Vísi samþykkt af Samkeppniseftirlitinu munu núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar fara yfir það tólf prósent hámark sem hver útgerð má samkvæmt lögum halda á af úthlutuðum kvóta. Vísir hélt á 2,16 prósent af úthlutuðum kvóta þegar greint var frá því hvernig hann skiptist á milli útgerða í nóvember í fyrra. Síldarvinnslan var þá skráð með 9,41 prósent af úthlutuðum kvóta.
Þegar við bætist 1,03 prósent kvóti sem Bergur Huginn, sem Síldarvinnslan lauk kaupum á í fyrra, heldur á fer samstæðan yfir tólf prósent hámarkið.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur.
Samkeppniseftirlitið telur vísbendingar um að þessir aðilar, Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, eigi mögulega að teljast tengdir í skilningi laga. Þetta kom fram í ákvörðun sem eftirlitið birti í byrjun árs 2021. Þeir héldu samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra. Nú bætist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fer upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.