Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandið hefur ekki verið dregin formlega til baka, segir Maja Kocijanic, talsmaður framkvæmdastjóra nágrennastefnu og aðildarviðræðna hjá Evrópusambandinu. Hún sat fyrir svörum á blaðamannafundi framkvæmdastjórnar ESB í Brussel fyrr í dag.
Kocijanic sagði að það væri réttur Íslands að taka sjálfstæða ákvörðun um málið. Evrópusambandið virði slíkar ákvarðanir. Hún sagði jafnframt að Ísland væri ennþá mikilvægt samstarfsríki og dyr Evrópusambandsins stæðu Íslendingum auðvitað enn opnar.
Margaritis Schinas, talsmaður Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, neitaði því að ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri áfall fyrir Evrópusambandið. Ísland hefði ákveðið að sækja um þegar ástandið hér var erfitt og nú vildi Ísland taka pásu. „Það er í góðu lagi. Það er fullveldisákvörðun, dyr okkar standa opnar, við erum áfram í viðskiptum,“ sagði hann.
Jafnaðarmenn á Evrópuþinginu skora á ríkisstjórnina
Ríkisstjórn Íslands ætti að fá samþykki Alþingis fyrir því að draga til baka umsókn að Evrópusambandinu, rétt eins og samþykki Alþingis var fengið fyrir því að hefja aðildarferlið. Þetta segir Knut Fleckenstein, varaformaður þingflokks jafnaðarmanna á Evrópuþinginu.
Þingflokkur jafnaðarmanna á Evrópuþinginu sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem stjórnvöld á Íslandi eru hvött til þess að standa við loforð um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB. Formaður þingflokksins, Gianni Pittella, segir að þingsályktunartillaga sem Alþingi samþykkti sé ennþá í gildi. „Það er auðvitað á valdi íslensku þjóðarinnar að ákveða hvort hún vill ganga í Evrópusambandið.“