Evrópusambandið hefur gefið eftir í störukeppni sinni við stjórnvöld í Rússlandi með því að segja að orkufyrirtæki innan sambandsins geti keypt rússneskt gas án þess að brjóta þau viðskiptabönn sem sett hafa verið á vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Rússar skrúfuðu fyrir gas til Póllands í apríl og hafa hótað að hefta gasflæði til fleiri Evrópulanda á næstunni. Ástæðan er sú að samkvæmt skilmálum viðskiptaþvingana sem ESB beitir Rússa má ekki greiða þeim fyrir vörur eða viðskipti í rúblum. Um helmingur alls gass sem notaður er innan ESB er unninn úr rússneskri jörð.
Framkvæmdastjórn ESB sendi endurskoðar viðmiðunarreglur til aðildarríkjanna í lok síðustu viku um að skilmálar viðskiptaþvingana séu uppfylltir svo lengi sem greitt er fyrir vörur með evrum eða dollurum. Þvinganirnar koma að sögn framkvæmdastjórnarinnar ekki í veg fyrir að fyrirtæki opni bankareikninga til greiðslna í takti við ákvæði fyrirliggjandi samninga um kaup á gasi í upprunalandi þess. Fyrirtæki ættu að gefa það skýrt til kynna að þau ætli sér að standa við samningsbundnar skuldbindingar sínar en að greiðslur verði í evrum eða dollurum.
Í frétt Al Jazeera segir að þetta þýði að evrópskum orkufyrirtækjum sé heimilt að opna bankareikninga í banka rússneska gasfyrirtækisins Gazprom og geti þar með haldið áfram að kaupa gas þrátt fyrir viðskiptaþvinganir þær sem Rússar eru beittir. Hins vegar hefur framkvæmdastjórnin ekki svarað þeim skilyrðum sem rússnesk stjórnvöld hafa sett fyrir áframhaldandi gasviðskiptum um að fyrirtækin opni annan reikning og það í rúblum. Að öðrum kosti geti greiðslur í evrum og dollurum aldrei fyllilega gengið í gegn.
Staða Evrópusambandsríkja í þessu tilliti er þröng. Þau eru algjörlega háð Rússum með í augnablikinu og það mun ekki breytast á næstu misserum. Orkufyrirtækin eru að reyna að halda gasleiðslunum opnum og ítalska gasfyrirtækið Eni SpA hafði ætlað sér að fara að skilmálum Rússa og opna reikninga bæði í rúblum og evrum í Gazprom-bankanum. Bloomberg segir fyrirtækið ekki sjá sér annað fært til að ekki verði gasskortur á Ítalíu. En það vildi bíða eftir viðmiðunarreglum framkvæmdastjórnarinnar sem nú eru fram komnar.
Þýski orkurisinn Uniper SE og sá austurríski, OMV AG, hafa einnig sagt að þeir verði að halda gaskaupum við Rússa áfram þrátt fyrir viðskiptaþvinganirnar.
Efnahagsráðherra Þýskalands, Robert Habeck, segist bjartsýnn á að orkufyrirtækin geti greitt reikninga sína fyrir mánaðamótin og að rússneska gasið haldi áfram að flæða til notenda í Evrópu þrátt fyrir kröfur rússneskra stjórnvalda um greiðslur í rúblum. „Fyrirtækin munu borga næstu reikninga sína í evrum,“ sagði hann í gær. Samkvæmt skilmálum viðskiptabannsins mega rússneskir bankar millifæra þessar greiðslur inn á svokallaða K-reikninga, útskýrði Habeck, en sagði ekkert um hvort millifærslan mætti vera í rúblum. „Þetta er að mínu mati samkvæmt viðskiptaþvingununum og framkvæmdastjórn ESB er á sama máli.“
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, gagnrýnir ESB fyrir að gefa eftir gagnvart Rússum þegar kemur að greiðslum sem í raun verða í rúblum.
„Ég varð fyrir vonbrigðum að sjá að innan Evrópusambandsins er samþykki fyrir því að borga fyrir gas í rúblum,“ sagði hann um helgina. „Pólland mun standa við sitt og ekki láta undan kúgunum Pútíns.“
Pólland á landamæri að Úkraínu og þangað hefur fólk leitað skjóls undan stríðinu í miklum mæli. Ógnin sem Pólland upplifir vegna stríðsrekstrar Rússa í Úkraínu er þar raunverulegri og áþreifanlegri en víðast hvar annars staðar í Evrópu.