Ríkisstjórn Ítalíu samþykkti í vikunni nýjan björgunarpakka sem felur í sér niðurgreiðslur á orkuútgjöldum heimila þar í landi, sem hafa hækkað hratt á undanförnum misserum. Umfang pakkans getur numið allt að 685 milljörðum króna, en hann er einn af mörgum sem ríkisstjórnir Evrópulanda hafa ráðist í á undanförnum vikum til að bregðast við hækkandi verði á gasi til húshitunar.
Ráðherrar uggandi yfir verðhækkunum
Samkvæmt frétt sem birtist á vef Financial Times í gær hefur gasverð hækkað töluvert í álfunni á síðustu mánuðum. Að hluta til megi skýra verðhækkunina með versnandi birgðastöðu í löndunum þar sem síðasti vetur reyndist langur og kaldur, en einnig hafi minni gasútflutningur frá Rússlandi til Vestur- Evrópu átt sinn þátt í henni.
Financial Times greinir frá því að ráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins muni hittast í vikunni til að ræða hvernig hið opinbera ætti að bregðast við þessum verðhækkunum. Ráðherrarnir óttast að hækkanirnar muni draga úr væntu efnahagsviðspyrnunni að lokum heimsfaraldursins og aukið mótstöðu við fyrirhugaðar loftslagsaðgerðir sambandsins, sem gert er ráð fyrir að verði kostnaðarsamar.
Gasvinnsla aukin í Norðursjó
Í síðustu viku samþykkti ríkisstjórn Spánar að ráðast gegn svokölluðum okurhagnaði orkufyrirtækjanna þar í landi og veita orkukaupendum skattaafslátt. Sömleiðis hefur franska ríkisstjórnin hefur tilkynnt um 15 þúsund króna niðurgreiðslu á orkureikningi sex milljón lágtekjuheimila þar í landi.
Helge Hauganes, yfirmaður orku og jarðgass norska orkufyrirtækisins Equinor, segir í samtali við Financial Times að fyrirtækið hafi ákveðið að bregðast við þessari verðhækkun með aukinni framleiðslu á jarðgasi í Norðursjó. Equinor er stjórnað af norska ríkinu, en Noregur er næststærsti söluaðilinn á gasi til húshitunar á Evrópumarkaði, á eftir Rússlandi.