Efst á blaði í kosningaáherslum Vinstri grænna, sem markaðar voru á landsþingi flokksins um liðna helgi, er að það skipti máli hverjir stjórni, en það var einnig yfirskrift landsþingsins sjálfs. Flokkurinn segir að það þurfi að „láta verkin tala, leysa úr ágreiningi og vera reiðubúin að gera málamiðlanir til að árangri fyrir samfélagið allt.“
Í kosningastefnu flokksins er margt almennt orðað og fá beinhörð loforð um aðgerðir sett fram, en hið sama á raunar við um kosningastefnur hinna stjórnarflokkanna tveggja, sem hafa nýverið verið kynntar.
Kjarninn kíkti á það helsta sem Vinstri græn settu inn í kosningastefnuskrá sína á dögunum.
Skoða skuli þrepaskiptingu fjármagnstekjuskatts
Um skattamál segir að skattkerfið eigi að nýta að til að jafna kjör og meta skuli kosti þess að taka upp þrepaskiptann fjármagnstekjuskatt, líkt og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og flokksformaður viðraði fyrir skemmstu.
Einnig segir að skattkerfið eigi að styðja við markmið Íslands í loftslagsmálum, án þess að það sé nánar útskýrt. Skattkerfið á sömuleiðis að vera réttlátt og ekki veita nein tækifæri á skattaundanskotum, samkvæmt stefnu flokksins.
Vilja minnka losun um 60 prósent fyrir 2030
Vinstri græn segja að Ísland eigi að vera í fararbroddi er kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, „með tímasettri áætlun um orkuskipti í samgöngum, þungaflutningum, sjávarútvegi, landbúnaði og byggingariðnaði,“ sem miði að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2045. Það er einna helst í þessum kafla kosningaáherslna VG sem finna má einhver tölusett markmið.
Vinstri græn segjast vilja að markmið Íslands um samdrátt í losun verði uppfærð og stefnt verði að því að minnka losun um a.m.k. 60 prósent árið 2030 og að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040.
Flokkurinn segir að leggja skuli áherslu á fjölbreytta samgöngumáta og að tryggja þurfi orkuskipti í almenningssamgöngum samhliða eflingu þeirra.
„Græn tenging milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar verði eitt af forgangsmálunum. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu. Efla þarf almenningssamgöngur um land allt og gera þær að raunhæfum valkosti,“ segir í kosningaáherslum flokksins.
Barnabætur nái til fleiri
Vinstri græn segjast vilja vinna gegn fátækt barna og bæta hag tekjulægri fjölskyldna með því að láta barnabætur ná til fleiri en þær gera í dag. Ekki kemur fram í stefnunni hver skerðingarmörk barnabóta ættu að vera, að mati flokksins.
Flokkurinn segist einnig vilja auka stuðning við félagslegt húsnæði, fjölga almennum íbúðum og gera réttlátar úrbætur á framfærslukerfi öryrkja, þar sem tekjulægstu hóparnir og öryrkjar með börn verði í forgangi.
Vinstri græn segjast sömuleiðis vilja efla opinbera heilbrigðiskerfið og lækka kostnað sjúklinga með því að afnema öll komugjöld í heilsugæslunni og lækka gjöld fyrir aðra heilbrigðisþjónustu, lyf og hjálpartæki. Þá segist flokkurinn vilja auðvelda sveigjanleg starfslok og stuðla að „samtali kynslóðanna um stór og lítil mál“ auk þess að vinna gegn einmanaleika aldraðra.
Flokkurinn segist vilja skapa ný og fjölbreytt græn störf og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Einnig vilja Vinstri græn halda áfram að styrkja rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar og segja næsta skref eiga að vera „að styrkja enn betur við Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð og gera varanlegar breytingar til að fjölga starfslaunum listamanna.“
Vinstri græn segja háskóla vera undirstöðu sterkari þekkingargeira og að tryggja þurfi sambærilega fjármögnun þeirra og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þetta áherslumál er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, en markið var sett á að ná þessu takmarki fyrir árið 2025. Það er „komið vel á veg“, samkvæmt mati stjórnvalda sjálfra.
Flokkurinn segir að styðja þurfi betur við innlenda matvælaframleiðslu, vinna tímasetta áætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu, auka stuðning við grænmetisrækt og tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar.
„Sanngjarnt gjald“ af nýtingu auðlinda
Í stefnu Vinstri grænna segir að þau sem nýta auðlindir í þjóðareign, „hvort sem það er land, orka, sjávarauðlindin eða annað, þurfa að greiða sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu“ og að Alþingi eigi að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.
Eins og fjallað hefur verið um hefur orðalagið í landsfundarsamþykktum flokksins varðandi stjórnarskrárbreytingar verið túlkað sem „kúvending“ Vinstri grænna í stjórnarskrármálum, en Katrín Oddsdóttir formaður Stjórnarskrárfélagsins benti á það um helgina að í stefnu flokksins frá árinu 2017 hefði verið fjallað um að ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klára nýja stjórnarskrá sem byggði á tillögum stjórnlagaráðs.
Verndun 30 prósent svæða á landi og hafi fyrir 2030
Vinstri Græn segja Ísland geta náð „einstökum árangri í náttúruvernd á alþjóðavísu með því að vernda óbyggð víðerni“ og vill flokkurinn stefna að því að 30 prósent svæða á landi og hafi verði vernduð fyrir árið 2030.
„Áfram þarf að vinna að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og þjóðgarðs á Vestfjörðum. Slíkir þjóðgarðar eru einnig mikilvægir til að tryggja vernd jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir í kosningastefnu flokksins.
Þar segir einnig að afgreiða þurfi 3. áfanga rammaáætlunar og endurskoða löggjöfina um rammaáætlun. Einnig segir flokkurinn að það þurfi að endurskoða stærðarviðmið virkjanaframkvæmda þar sem „megavött eru ómarktækur mælikvarði á umhverfisáhrif“, auk þess sem halda þurfi áfram að endurskoða regluverk vegna vindorku.
Réttarstaða brotaþola verði betur tryggð
Vinstri græn segjast vilja halda áfram því verkefni að útrýma kynbundnu ofbeldi og tryggja betur réttarstöðu þolenda kynbundins ofbeldis, kynferðisofbeldis og áreitni með „skýrum lagabreytingum og markvissri framkvæmd.“
Flokkurinn segist líka vilja stíga „stór skref“ í að útrýma kynbundnum launamun, meðal annars með því að „endurmeta störf kvennastétta“ og tryggja það að Ísland standi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um fullt jafnrétti kynjanna fyrir árið 2030.
Þá segist flokkurinn vilja brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Næsta skrefið í þeim efnum, nú þegar búið er að lengja fæðingarorlofið, sé „að gera tímasetta áætlun í samstarfi við sveitarfélögin um hvernig leikskólarnir geta tekið við börnum að loknu fæðingarorlofi.“
Þá segir flokkurinn að tryggja þurfi aðgengi að iðn- og verknámi um allt land og að stefna skuli að því að leggja af sérstök skólagjöld í listnámi. Vinstri græn vilja líka að framhaldsskólanemar hafi meiri sveiganleika í lengd náms, til þess að þeir hafi aukið svigrúm til fjölbreytni og félagsstarfs.