Samtökin ‘78 fagna lagafrumvarpi um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs er snúa að gjaldtöku vegna nafnabreytinga og vegna breytinga á skráningu kyns. Í umsögn samtakanna við frumvarpið er það sagt gríðarleg réttarbót fyrir þau sem vilja breyta kynskráningu sinni og nafni, „og getur sú breyting haft afar jákvæð áhrif á andlega líðan og sjálfsmynd viðkomandi aðila.“
Að mati samtakanna sé öllum í hag að Þjóðskrá sé sem allra réttust og að einstaklingar sem vilji breyta kynskráningu sinni geti gert svo án þess að þurfa að greiða sérstaklega fyrir það. Að mati samtakanna styður breytingin ekki aðeins við kynrænt sjálfræði heldur sé breytingin sem lögð er til með frumvarpinu á vissan hátt leiðrétting á lögum um kynrænt sjálfræði „þar sem hugsunin með því frumvarpi var að opna enn frekar á breytingar í stað þess að torvelda fólki að breyta skráningu sinni.“ eins og það er orðað í umsögn samtakanna.
Því telji Samtökin ‘78 að frumvarpið eigi að vera samþykkt án breytinga.
Niðurfellingin styrki rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt
Frumvarpið sem um ræðir var lagt fram í febrúar á þessu ári. Í lagatexta frumvarpsins er lagt til að einn töluliður sé felldur brott úr lögum um aukatekjur ríkissjóðs en sá töluliður fjallar um gjöld sem innheimt eru fyrir leyfi til nafnbreytinga og fyrir leyfi til breytinga á skráningu kyns samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði. Gjaldið er í dag 9.000 krónur.
Í greinargerð frumvarpsins segir að megintilgangur þess sé að „að styrkja rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt, líkt og kveðið er á um í lögum um kynrænt sjálfræði, og rétt fólks til nafns. Að mati flutningsmanna standa jafnframt ríkir almannahagsmunir til þess að grundvallarupplýsingar eins og nafn og kyn séu rétt skráðar í þjóðskrá.“ Með gjaldtökunni skapist hindrun fyrir því að nafni og kyni einstaklinga sé sem réttust, sem aftur stendur í vegi fyrir því að markmið laga um skráningu einstaklinga í þjóðskrá haldist.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, en hann fjallaði um gjaldtökuna í þingræðu í janúar. „Sérstakur transskattur er ósanngjarn og óréttlátur. Hann varpar skugga á þá stórkostlegu réttarbót sem felst í lögum um kynrænt sjálfræði. Þingið þarf að viðurkenna að þarna varð okkur á í messunni, leiðrétta mistökin og afnema transskattinn strax,“ sagði hann meðal annars um transskattinn í ræðunni.
Þjóðskrá Íslands styður framgöngu frumvarpsins
Ein önnur umsögn um frumvarpið hefur borist, frá Þjóðskrá Íslands. Í umsögninni er frumvarpið sagt geta orðið til þess að einfalda nafnbreytingaferlið bæði fyrir umsækjanda og Þjóðskrá. Í dag sé ferlið snúið og ekki sé alltaf ljóst gagnvart umsækjanda hvort umsóknin sé gjaldfrjáls eða gjaldskyld.
„Aðeins lítill hluti nafnbreytinga er gjaldskyldur og með frumvarpinu er verið að leggja til að sá hluti verði gjaldfrjáls. Með afnámi gjaldtöku gæti Þjóðskrá jafnframt einfaldað ferlið við nafnbreytingar og breytingar á kyni talsvert sem yrði öllum aðilum til hagsbóta,“ segir í umsögn Þjóðskrár sem styður framgöngu frumvarpsins.