Langflestir Íslendingar virðast verja innan við klukkutíma á dag í að fylgjast með fréttum eða fréttatengdu efni um íslensk stjórnmál, þrátt fyrir að kosningabaráttan sé nú í hámæli og kosningar til Alþingis fari fram eftir 10 daga.
Samkvæmtniðurstöðum úr yfirstandandi netkönnun á vegum Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS) sem birtast á vef Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands segjast tæp 80 prósent landsmanna varið innan við klukkutíma í að fylgjast með fréttum eða fréttatengdu efni um innlend stjórnmál sólarhringinn áður en þau voru spurð.
Síðustu 14 daga segjast 8,5 prósent ekki hafa varið svo mikið sem einni mínútu í að fylgjast með stjórnmálunum í fréttum, 40 prósent segjast hafa varið minna en 30 mínútum í að fylgjast með og 30,2 segja að minna en klukkutími af þeirra degi hafi farið í fréttaneysluna.
Rúmlega 21 prósent svarenda segjast síðan hafa varið yfir klukkustund í að fylgjast með fréttum eða fréttatengdu efni um stjórnmálabaráttuna sem nú stendur yfir, en óhætt er að segja að framboðið af fréttum og fréttatengdum þáttum í sjónvarpi, vefvarpi, útvarpi og jafnvel hlaðvarpi hafi verið mikið undanfarnar vikur.
Yngsta fólkið og það elsta líklegast til að fylgjast mest með
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er það yngsta fólkið, í aldurshópnum 18-29 ára, og elsta fólkið, 60 ára og eldri, sem er líklegast til þess að verja yfir klukkustund af tíma sínum í að fylgjast með fréttum eða fréttatengdu efni af stjórnmálunum.
Í aldurshópnum 18-29 ára segist rúmur fjórðungur, eða 26,3 prósent, verja meira en einni klukkustund í að fylgjast með og tæpur fjórðungur, eða 24,2 prósent þeirra sem eru komin yfir sextugs, segjast gera slíkt hið sama.
Hjá þeim sem eru á bilinu 30-44 ára mælist þetta sama hlutfall 16,9 prósent og 17,2 prósent hjá þeim sem eru 45-59 ára.
Hátt í 13 prósent höfðu rætt pólítík á netinu daginn áður
Í könnun ÍSKOS er einnig spurt út í það hvort fólk hafi tekið þátt í umræðum um innlend stjórnmál á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring, til dæmis með því að skrifa ummæli við færslur eða með því að deila fréttum sem snúa að stjórnmálum.
Í ljós kemur að það segjast fáir hafa gert, eða einungis 12,6 prósent, en 87,4 prósent segjast ekki hafa tekið þátt í stjórnmálaumræðu á netinu undanfarinn sólarhring.
Nokkuð mikill munur er á körlum og konum hvað þetta varðar, en 16,1 prósent karla segjast hafa tekið þátt í umræðum á netinu undanfarinn sólarhring og 8,8 prósent kvenna.
Tekið skal fram að þegar rýnt er í niðurstöðurnar eftir aldurshópum eru svörin stundum fá, eða færri en 250, í hverjum hópi og því skal ef til vill varast að lesa of mikið í niðurstöðurnar.
Yfirstandandi könnun
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands birti í gær nýja síðu með niðurstöðum úr Íslensku kosningarannsókninni um kosningaætlan almennings, auk niðurstaðna um svörin við spurningunum sem er fjallað um hér að ofan og afstöðu til þess hver helstu stefnumálin eru í hugum kjósenda. Niðurstöðurnar um kosningaætlan í komandi kosningum eru þegar byrjaðar að vigta inn í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar.
Þessi könnun er ólík öðrum sem eru í gangi núna fyrir kosningar að því leyti að hún uppfærist daglega, en á hverjum einasta degi er könnunin send á 184 einstaklinga sem svara því hvað þeir myndu kjósa ef gengið væri til kosninga í dag.
Fylgi flokka og sömuleiðis svörin við þeim spurningum sem fjallað er um hér að ofan hnikast því lítillega til á hverjum degi og hægt er að merkja hvernig þróunin er, samkvæmt mælingunum.