„Mikilvægt er að forsendur framkvæmdarinnar séu settar fram á hlutlægan hátt og staðhæfingar studdar gögnum,“ segir Skipulagsstofnun í rökstuðningi álits síns á matsáætlun Vegagerðarinnar um færslu hringvegarins í Mýrdal. Stofnunin fellst á áætlunina með ýmsum skilyrðum og tekur undir ákveðnar athugasemdir frá stofnunum, samtökum og einstaklingum sem fram komu á auglýsingatíma.
Vegagerðin hyggst færa hringveginn um Mýrdal og vinnur nú að umhverfismati framkvæmdarinnar. Stofnunin segist vinna eftir þeirri stefnumótun sem fram komi í aðalskipulagi Mýrdalshrepps og Samgönguáætlun stjórnvalda til ársins 2024. Þar er lega vegarins dregin með ströndinni og í gegnum göng í Reynisfjalli. Vegagerðinni ber hins vegar að skoða aðra raunhæfa valkosti og bera saman með tilliti til umhverfisáhrifa og í þessu tilviki eru þeir samtals sjö. Fjórir þeirra gera ráð fyrir legu vegarins með ströndinni og í jarðgöngum í gegnum Reynisfjall.
Hart hefur verið deilt um þetta, ekki síst í ljósi þess að svæðið einkennist af sérstæðu landslagi, einstakri náttúru, sem hafa hlutverki að gegna í lífríkinu en eru einnig vinsælir áfangastaðir ferðamanna.
Í dag liggur vegurinn um Gatnabrún og að hluta í 10-12 prósent halla með nokkuð kröppum beygjum. Meðal valkosta eru útfærslur sem miða að endurbótum á þeim vegi. Sveitarstjórn vill veginn niður að strönd og um göng og telur aðra kosti út úr myndinni.
Í matsáætlun Vegagerðarinnar kemur fram að markmið framkvæmdarinnar felist í:
- Greiðfærni á veturna.
- Umferðaröryggi.
- Þjóðveg út úr þéttbýli sem bætir öryggi og hljóðvist í þéttbýli.
- Stytting hringvegar.
Skipulagsstofnun gerir hins vegar í áliti sínu athugasemdir við að flutningur þjóðvegar út úr þéttbýlinu sé sett fram sem markmið framkvæmdarinnar. Að mati stofnunarinnar ættu markmiðin að lúta að atriðum eins og öryggi, hljóðvist og þeirri þjónustu sem veginum er ætlað að sinna fyrir samfélagið á svæðinu og umferð um svæðið, fremur en að fela í sér tiltekna valkosti um legu vegarins. „Í matsáætlun eru ekki lögð fram gögn sem rökstyðja þörfina á þessu markmiði eða sýnt fram á að ekki sé unnt að ná fram ásættanlegu öryggi og hljóðvist í þéttbýlinu með endurbótum á núverandi vegi og viðeigandi útfærslu hans og hönnun, svo sem með tilliti til umferðarhraða.“
Í matsáætluninni segir jafnframt: „Stefnt er að því að vegurinn verði greiðfær og öruggur láglendisvegur. Láglendisvegur um Mýrdal við Dyrhólaós er talinn bæta umferðaröryggi og útrýma erfiðum farartálma í vetrarveðrum á leiðinni frá Hellisheiði til Reyðarfjarðar.“
Í umsögnum um matsáætlun er m.a. bent á að vegurinn liggur nú um háls sem er mest í rúmlega 100 metra hæð yfir sjávarmáli og geti ekki talist hálendis- eða fjallvegur. Í umsögnum er lagt til að aflað verði gagna um hversu oft hringvegurinn lokast vegna slæms veðurs undir Eyjafjöllum, í Öræfum og á Hellisheiði til samanburðar.
Skipulagsstofnun tekur í áliti sínu undir þessar ábendingar. „Mikilvægt er að forsendur framkvæmdarinnar séu settar fram á hlutlægan hátt og staðhæfingar studdar gögnum,“ segir í álitinu. Í umhverfismatsskýrslu þurfi að leggja fram upplýsingar um hversu oft, hve lengi og hvers vegna hringveginum við Reynisfjall er lokað árlega, t.d. sl. 10 ár, og bera saman við aðra kafla á hringveginum sem stundum er lokað, s.s. Hellisheiði, Eyjafjöll og Öræfi. Í vetrarveðrum getur færð spillst á stórum svæðum og fleiri en einum stað. Skipulagsstofnun telur ástæðu til að í umhverfismatsskýrslu komi fram upplýsingar um hversu oft lokanir við Reynisfjall eru hluti af víðtækari lokunum og hversu oft umræddur vegkafli við Reynisfjall er eina lokunin á hringveginum um Suðurland.
Þá gagnrýnir Skipulagsstofnun einnig að í umfjöllun um forsendur framkvæmdarinnar sé birt yfirlit um slys og slysatíðni á árinum 2014-2018. „Ekki er gerð grein fyrir því af hverju umrætt tímabil var valið. Skipulagsstofnun telur að yfirlit yfir lengra tímabil gefi betri mynd af slysatíðni, sem og að nýta nýjustu upplýsingar“. Sama eigi við um umferðartalningar, sem eru eingöngu birtar fyrir árin 2014- 2018.
Stofnunin setur svo sem skilyrði að allir valkostir verði útfærðir, hannaðir og gagna fyrir þá aflað með sambærilegum hætti. Jafnframt þurfi að meta alla valkosti með sama hætti í umhverfismatsskýrslu.
Áhrif á útivist og ferðamennsku verði rannsökuð
Meðal annarra skilyrða sem stofnunin setur er að fjallað verði um áhrif allra valkostanna á útivist og tómstundir íbúa Víkur. „Við slíkt mat þarf að meta tengsl við og gæði nálægra útivistarsvæða sem og útisvæða í þéttbýlinu og gæði tenginga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.“ Ofangreint mat á áhrifum á samfélagið í Vík þarf m.a. að byggja á viðhorfskönnun meðal íbúa til mismunandi valkosta.
Einnig þarf að meta áhrif á ferðaþjónustu og útivist með því að ráðast í viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila á svæðinu til mismunandi valkosta.
Veglína í norðurjaðri Dyrhólaóss, sem er meðal valkosta, mun liggja á mótum mýrlendis og sjávarleira. Skipulagsstofnun minnir á að votlendi yfir 2 hektara að stærð og leirur njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og forðast ber að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til. „Ef framkvæmdin hefur áhrif á svæði sem njóta sérstakrar verndar þarf að rökstyðja brýna nauðsyn þess að raska svæðunum í umhverfismatsskýrslu.“
Alls eru skilyrði Skipulagsstofnunar sett fram í ellefu liðum sem lesa má nánar um hér.
Næsta skref í umhverfismati er gerð og kynning umhverfismatsskýrslu. Allir geta sent inn athugasemdir þegar hún verður auglýst. Skipulagsstofnun gefur svo álit sitt á endanlegri skýrslu og þar með lýkur umhverfismati framkvæmdarinnar.