Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,8% milli mánaða í febrúar, þar af hækkaði fjölbýli um 2% og sérbýli um 0,9%. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans í dag. Árshækkun fjölbýlis er nú 11,6% og árshækkun sérbýlis 8,1%. Alls hefur fasteignaverð því hækkað um 10,8% síðustu 12 mánuði. „Þetta eru miklar hækkanir sem koma í kjölfar mikilla hækkana bæði í desember og í janúar,“ segir í hagsjánni.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur lækkað síðustu 12 mánuði og hefur raunverð því hækkað mikið. Raunverð fjölbýlis hefur hækkað um 13,3% síðasta árið en sérbýlis um 9,7%. Alls hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 12,4% á síðustu 12 mánuðum, segir í hagsjá Landsbankans.