Á síðustu tveimur árum hafa Norðmenn samanlagt vísað 19 manns til Grikklands á grundvelli þess að fólkið hafi þegar verið með viðurkennda stöðu flóttafólks þar í landi. Danir hafa svo frá því í upphafi árs 2021 hafnað 14 umsóknum um alþjóðlega vernd á grundvelli þess að fólk sé þegar með viðurkennda stöðu flóttamanns í Grikklandi.
Þetta kemur fram í svörum sem Kjarnanum hafa borist frá yfirvöldum útlendingamála í löndunum tveimur, Útlendingastofnun (Utlendingsdirektoratet) í Noregi og innflytjenda- og aðlögunarráðuneyti Danmerkur.
Kjarninn beindi sömu spurningum til yfirvalda útlendingamála í ríkjunum tveimur og beint var til yfirvalda útlendingamála í Þýskalandi fyrir skemmstu, þ.e. hversu margir einstaklingar sem hefðu þegar hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi hefðu leitað til landanna og sótt um vernd á undanförnum tveimur árum og hve mörgum í þeirri stöðu hefði verið vísað til Grikklands á sama tíma.
Fjórtan í fyrra, níu í ár
Samkvæmt svari sem barst frá fjölmiðlafulltrúa norsku Útlendingastofnunarinnar getur stofnunin ekki kallað fram upplýsingar úr gagnagrunnum sínum um það hve margir með stöðu flóttamanns í Grikklandi hafa leitað til Noregs og lagt fram umsókn um vernd.
Hins vegar eru tiltækar upplýsingar um brottvísanir fólks úr þeim hópi. Í fyrra var 10 manns vísað sem sóttust eftir hæli í Noregi vísað úr landi aftur til Grikklands og það sem af er þessu ári eru brottvísanirnar níu talsins.
Fjórtán neitanir um vernd í Danmörku
Í svarinu sem barst frá danska ráðuneytinu skrá dönsk innflytjendayfirvöld það ekki sérstaklega hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd eru þegar með stöðu flóttamanna í öðru Evrópuríki.
Hins vegar var danska ráðuneytinu mögulegt að kalla fram upplýsingar um fjölda þeirra sem voru með viðurkennda stöðu flóttamanns í Grikklandi og hefur verið neitað um vernd í Danmörku á þeim grundvelli. Alls 14 manns höfðu fengu neitun um vernd á þeim grundvelli frá því í ársbyrjun 2021 og til 13. nóvember á þessu ári, samkvæmt danska ráðuneytinu. Ekki kemur fram í svari danskra yfirvalda hve mörgum þeirra hefur verið vísað úr landi.
Í svari danskra yfirvalda er sérstaklega bent á að hælisleitendur með stöðu flóttamanna í Grikklandi sem „hverfa eða draga umsókn sína til baka áður en niðurstaða fæst, eða fá umsókn sína tekna til efnismeðferðar í Danmörku, til dæmis á grundvelli sérlega viðkvæmrar stöðu, eru ekki inni í þessari tölfræði“. Einnig er tekið fram að tölurnar nái ekki heldur yfir þá einstaklinga sem hlotið hafa viðbótarvernd í Grikklandi.
Tvö Evrópuríki hafa á þessu ári ákveðið að hætta nær alfarið endursendingum á flóttafólki aftur til Grikklands, vegna aðstæðna sem þau sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í landinu búa við. Eins og Kjarninn sagði frá fyrr í mánuðinum var ákvörðun Þýskalands í þessum efnum tekin í kjölfar úrskurða ýmissa þýskra dómstóla, sem telja að hætta á örbirgð og vanvirðandi meðferð, í skilningi Mannréttindasáttmála Evrópu, vofi yfir flóttafólki sem sent yrði aftur til Grikklands.
Hitt landið er Holland, en þar í landi hafði ríkisráðið ítrekað snúið við ákvörðunum yfirvalda útlendingamála um að synja umsækjendum um vernd um efnismeðferð á grundvelli þess að þau hafi þegar stöðu flóttafólks í Grikklandi.
Rauði krossinn telur flutning til Grikklands óforsvaranlegan
Í kjölfar fjöldaflutnings flóttafólks í þessari stöðu til Grikklands í upphafi mánaðar ítrekaði Rauði krossinn á Íslandi fyrri skilaboð sín um að brottflutningur flóttafólks til Grikklands væri óforsvaranlegur að mati samtakanna.
„Rauði krossinn á Íslandi fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem þegar hafa fengið stöðu sína viðurkennda í Grikklandi. Félagið hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir til Grikklands og telur að þær skapi fólki hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna.
Á vormánuðum birti Rauði krossinn ítarlega greinargerð um aðstæður flóttafólks í Grikklandi, þar sem fjallað var um ýmsar hindranir sem standa í vegi þeirra sem fá úthlutaðri alþjóðlegri vernd í landinu. Meðal annars var þar fjallað um takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu, húsnæði, atvinnu og félagslegri aðstoð og framfærslu.
„Rauði krossinn telur í ljósi fjölmarga heimilda sem ber saman um óviðunandi aðstæður flóttafólks í Grikklandi, að endursendingar þess til Grikklands feli í sér verulega hættu á því þau verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð,“ segir í samantekt Rauða krossins á Íslandi.