Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur sektað fyrirtækið FX Iceland ehf., sem rekur gjaldeyrisskiptastöð, um 2,7 milljónir króna fyrir margháttuð og alvarleg brot á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2018 og tóku gildi í byrjun árs 2019. Samkvæmt lögunum hefur eftirlitið heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn lögunum frá 500 þúsund krónum að 500 milljóna króna.
Athugun Fjármálaeftirlitsins á starfsemi fyrirtækisins leiddi í ljós víðtæka veikleika sem fólu í sér alvarleg brot gegn grundvallarþáttum í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Aftur á móti horfði Fjármálaeftirlitið til þess að umfang starfsemi málsaðila var lítið og að málsaðili var nýbúinn að hljóta skráningu sem gjaldeyrisskiptastöð þegar kórónuveirufaraldurinn hófst. Til lækkunar á sektarfjárhæð horfði Fjármálaeftirlitið horft til þess að um væri að ræða fyrsta brot málsaðila, að málsaðili sýndi samstarfsvilja við meðferð málsins sem fólst í því að gera að fyrra bragði áætlun um úrbætur og upplýsa um framgang þeirra. Þá leit Fjármálaeftirlitið við ákvörðun sektarfjárhæðir til fjárhagsstöðu málsaðila.
Málinu var lokið með samkomulagi um sátt milli FX Iceland og Fjármálaeftirlitsins sem birt var á vef Seðlabankans í síðustu viku.
FX Iceland var með 22 milljónir króna í rekstrartekjur á árinu 2020 og tapaði alls 1,1 milljón króna.
Viðvarandi viðskiptasamband
Málið á rætur sínar að rekja til þess að Fjármálaeftirlitið réðst í vettvangsrannsókn hjá fyrirtækinu í nóvember 2020. Markmiðið var að kanna hvort FX Iceland væri að starfa í samræmi við áðurnefnd lög.
Í samkomulaginu sem birt var í liðinni viku kemur fram að á meðal þess sem eftirlitið gerði í vettvangsrannsókninni var að taka úrtak 20 stærstu viðskiptamanna málsaðila. „Í ljós komu annmarkar sem snéru að aðgerðum málsaðila gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Voru annmarkar taldir vera á flestum þáttum sem teknir voru til skoðunar, m.a. áhættumati málsaðila á rekstri sínum og viðskiptum, framkvæmd áreiðanleikakannana, reglubundnu eftirliti, verkferlum, tilkynningum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu (SFL) og varðveislu gagna.“
Á meðal þess sem kemur fram í skjalinu er að við yfirferð gagna um 20 stærstu viðskiptamenn málsaðila hafi komið í ljós að alls 14 viðskiptamenn hafi stundað viðskipti umfram 15 þúsund evrur. „Í áhættumati málsaðila kom fram að m.a. skyldi framkvæma aukna áreiðanleikakönnun þegar viðskiptamaður stundaði viðskipti með 15.000 evrur í einstökum viðskiptum eða samanlagt. Þá reyndist málsaðili hafa stundað viðskipti við tvo viðskiptamenn eftir að Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, sem sinnir eftirliti með peningaþvætti, sendi tilkynningu um grunsamleg viðskipti vegna þeirra. „Málsaðili framkvæmdi ekki aukna áreiðanleikakönnun í framangreindum tilvikum, þ.e. hvorki í þeim tilvikum þar sem viðskiptamenn stunduðu viðskipti fyrir 15.000 evrur eða meira né í þeim tilvikum sem málsaðili stundaði viðskipti við viðskiptamenn eftir að hafa sent tilkynningu um grunsamleg viðskipti þeirra.“
Upplýsingar um 20 stærstu viðskiptamenn málsaðila leiddu í ljós að í öllum tilvikum var um viðvarandi viðskiptasamband að ræða þar sem sömu einstaklingarnir komu ítrekað með háar fjárhæðir án þess að málsaðili óskaði frekari upplýsinga eða staðfestinga þeim tengdum.
Þá kom einnig fram í vettvangsrannsókninni að FX Iceland óskaði ekki eftir því að viðskiptamenn sem stunduðu viðskipti að jafnvirði 150 evrur eða minna gerðu grein fyrir sér með nafni eða persónuskilríkjum. Í kerfum fyrirtækisins voru slíkir viðskiptamenn merktir sem „walk-in” og frekari upplýsingar um þá ekki skráðar.
Ísland lenti á gráum lista vegna ónógra peningaþvættisvarna
FATF, alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, setti Ísland á gráan lista samtakanna í október árið 2019, meðal annars vegna þess að þau töldu skort vera á upplýsingum um eignarhald íslenskra félaga. Samtökin gáfu eftirliti hér á landi með peningaþvætti falleinkunn í kjölfar úttektar sem þau gerðu á Íslandi, en sú niðurstaða lá fyrir vorið 2018.
Alls var gerð athugasemd við 51 atriði í laga- og reglugerðarumhverfi Íslands og því hvernig við framfylgjum eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
FATF ákvað að fjarlægja Ísland af gráa listanum í október 2020 eftir að margháttaðar úrbætur voru gerðar í vörnum gegn þeim málum.