Fyrr á þessu ári náðist samkomulag á milli félagsins Ramses II, sem er í fullri eigu borgarfulltrúans Eyþórs Arnalds, og félagsins Kattarnefs, sem er dótturfélag Samherja, um að annað félag í eigu Eyþórs, sem heitir Ramses, keypti kröfu sem Kattarnef átti á Ramses II.
Um er að ræða kröfu vegna skuldabréfaláns sem Kattarnef veitti Ramses II til kaupa á eignarhlut í Þórsmörk, móðurfélagi útgáfufélagsins Árvakurs, sem gefur út Morgunblaðið, mbl.is og fleiri miðla.
Þetta má lesa í ársreikningi Ramses II fyrir árið 2020, sem orðinn er aðgengilegur á vef Skattsins. Ekki kemur fram hversu mikið Ramses greiddi Kattarnefi fyrir kröfuna, ef eitthvað.
Vert er að taka fram að Kattarnef var búið að afskrifa kröfuna sem félagið átti á félag Eyþórs. Það var gert árið 2019 og þýðir að Kattarnef hefur ekki gert sér vonir um að nokkuð myndi innheimtast af láninu sem félag Eyþórs fékk á sínum tíma til að kaupa hlut í Þórsmörk.
„Skuldabréfalán félagsins féllu á gjaldaga á árinu. Á árinu 2021 náðist samkomulag við kröfuhafa um að móðurfélag félagsins keypti kröfuna af lánveitendum,“ segir í ársreikningi Ramses II. Þar segir einnig að gjaldfallnar afborganir félagsins hafi numið alls 386,8 milljónum króna.
Eyþór hefur ekki brugðist við spurningu Kjarnans, sem lögð var fram í gær, um hvort félag hans hafi greitt dótturfélagi Samherja eitthvað fyrir kröfuna, en eins og áður hefur komið fram var um að ræða svokallað seljendalán, sem Samherji veitti félagi Eyþórs til kaupa á hlut Samherja í útgáfufélagi Morgunblaðsins. Einungis einn gjalddagi var á láninu, í mars í fyrra.
Eyþór sagði við Kjarnann í október í fyrra að honum þætti ólíklegt að eignarhluturinn í útgáfufélagi Morgunblaðsins færðist aftur til Samherja í ljósi þess að lánið væri gjaldfallið, en það hafði þá komið fram í ársreikningi Ramses II fyrir árið 2019.
Hann sagði hlut sinn í útgáfufélaginu til sölu sem fyrr og að seljendalán eins og það sem hann hefði fengið frá Samherja væru algeng aðferð þegar um áhættufjárfestingu væri að ræða og óvissa ríkti um verðmæti þess hlutar sem keyptur er.
Eyþór var ekki byrjaður í borgarpólitíkinni þegar hann varð hluthafi í útgáfu Morgunblaðsins og vék úr stjórn Árvakurs eftir að hann fór í framboð sem oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Á stjórnmálasviðinu í borginni hafa þó ítrekað verið settar fram áleitnar spurningar um það af hverju hann hafi eignast svo stóran hlut í einu stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins.
Greint var frá því að Eyþór hefði stigið inn sem kjölfestufjárfestir í Árvakri í byrjun apríl árið 2017, en þá keypti hann 18,43 prósent hlut sem Samherji átti í gegnum félagið Kattarnef ehf. og til viðbótar keypti hann 6,14 prósent hlut Síldarvinnslunnar hf. og 2,05 prósent hlut Vísis hf. í útgáfufélaginu, alls 26,62 prósent á þeim tíma.
Sá hlutur hefur síðan rýrnað vegna ítrekaðra hlutafjárinnspýtinga annarra hluthafa Þórsmerkur og er Eyþór Arnalds í dag eigandi 13,41 prósents hlutar í útgáfufélaginu. Sá eignarhlutur var metinn á 82,4 milljónir króna um síðustu áramót og hefur lækkað um meira en 100 milljónir króna í virði frá árslokum 2017.