Drög að samningi við framkvæmdafélagið Arnarhvol um uppbyggingu nýs miðbæjar í Þorlákshöfn voru samþykkt á bæjarstjórnarfundar í Ölfusi í lok síðasta mánaðar. Arnarhvoll er í eigu Andra Sveinssonar, Árna Geirs Magnússonar, Birgis Más Ragnarssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Karls Þráinssonar, sem er jafnframt framkvæmdastjóri Arnarhvols.
Fulltrúar sveitarfélagsins Ölfuss hafa til skamms tíma átt í viðræðum við framkvæmdafélagið Arnarhvol um mögulega aðkomu þeirra að byggingu miðbæjar í Þorlákshöfn. „Viðræðurnar hafa verið byggðar á gildandi aðalskipulagi með áherslu á hvernig nýta má svæðið í kringum Selvogsbrautina til að skapa manneskjulegan og fallegan miðbæ,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar frá 28. apríl sl.
Í umfjöllun Hafnarfrétta kemur fram að nýi miðbærinn muni mótast af 200 metra langri göngugötu þar sem gera má ráð fyrir skrifstofum, verslunum, þjónustu og íbúðabyggð, auk opinna svæða og torga. Í fundargerð bæjarstjórnar kemur einnig fram að sveitarfélagið og Arnarhvoll hafi rætt mögulega samvinnu um byggingu fjölnota menningarsalar í nýja miðbænum sem myndi meðal annars nýtast fyrir tónlistarviðburði og ýmis konar listasýningar.
Arnarhvoll fái lóðum úthlutað í nýja miðbænum
Í fundargerðinni kemur fram að Arnarhvoll hafi lýst áhuga á að standa að metnaðarfullri uppbyggingu miðbæjarkjarna í Þorlákshöfn. Elliði Vignisson bæjarstjóri gerði einnig grein fyrir fyrstu hugmyndum um skipulag nýja miðbæjarins á fundi bæjarstjórnar þegar drög samningsins voru kynnt.
Vissu af áformunum tveimur sólarhringum fyrir fund
Bæjarfulltrúar O-listans, framfarasinna og félagshyggjufólks, sem mynda minnihluta í bæjarstjórn, lögðu fram bókun á fundinum þar sem gagnrýnt er að minnihlutinn hafi fyrst vitað af þessum hugmyndum um nýjan miðbæ rúmum tveimur sólarhringum fyrir bæjarstjórnarfundinn þar sem drög samkomulagsins voru tekin fyrir. „Engin umræða hefur átt sér stað innan bæjarstjórnar um að afhenda einum aðila miðbæjarsvæðið án auglýsingar og teljum við þau vinnubrögð ekki boðleg,“ segir í bókun O-listans, þar sem er þó tekið fram að bæjarfulltrúar O-listans styðji heilshugar uppbyggingu miðbæjarsvæðisins.
Bæjarfulltrúar O-listans telja það forkastanlegt að ekki sé horft til þess að auglýsa eftir áhugasömum aðilum í tengslum við uppbyggingu miðbæjarsins.
Enginn í meirihlutanum með tengsl við Arnarhvol
Tillögu minnihlutans um frestum afgreiðslu málsins var hafnað. Í bókun D-lista Sjálfstæðisflokks er fullyrt að bæjarfulltrúar minnihlutans höfðu sama tækifæri til að kynna sér málið og bæjarfulltrúar meirihlutans. Þannig hafi allir tímafrestir verið í samræmi við gildandi reglur og fundargögn hafi verið send út með tilgreindum tíma og afgreidd í samræmi við vandaða stjórnsýslu. Í bókuninni er einnig sérstaklega tekið fram að „enginn sem að málinu hefur komið hefur nokkur fyrri tengsl við Arnarhvol, eigendur þess að þá starfsmenn sem koma að málinu“.
Tillaga meirihlutans um að samþykkja samkomulagið var samþykkt með fjórum atkvæðum D-lista gegn þremur atkvæðum O-lista. Í aðsendri grein í Hafnarfréttum segjast frambjóðendur í efstu fjórum sætum D-listans í sveitarstjórnarkosningnum næstkomandi laugardag vera bjartsýn á að hönnun og skipulagi á nýja miðbænum ljúki innan skamms og fljótlega upp úr því geti framkvæmdir hafist.