Félagsdómur í Namibíu hefur úrskurðað að ArcticNam, sem er félag í helmingseigu Samherja, skuli greiða 23 starfsmönnum togarans Heinaste 15,7 milljónir króna í sáttargreiðslu. Stjórnarformaður félagsins segist vilja greiða upphæðina, en bíður eftir samþykki frá Samherja. Þetta kemur fram í frétt frá namibíska fréttamiðlinum New Era.
Samkvæmt fréttinni er greiðslan reiknuð sem árslaun þessara 23 manna, sem fengu engan uppsagnarfrest eða starfslokagreiðslur þegar þeir misstu vinnuna sína árið 2018 og leigustarfsmenn voru ráðnir til starfa í staðinn. Tíu mánuðum seinna var togarinn svo kyrrsettur.
Kjarninn hefur áður fjallað um kyrrsetninguna, en hún virtist fyrst vera vegna ólögmætra veiða á hrygningarsvæði við strendur Namibíu sem átti að vera lokað fyrir veiðum. Í febrúar í fyrra var togarinn hins vegar kyrrsettur aftur á grundvelli laga um skipulagða glæpastarfsemi.
Samkvæmt úrskurði félagsdóms í namibísku hafnarborginni Walvis Bay sem birtur var þann 24. júní, ætti ArcticNam, eigandi Heinaste, að borga starfsmönnunum samtals 1,8 milljón namibískra dala fyrir lok þessa mánaðar. Það jafngildir um 15,7 milljónum íslenskra króna.
Segir Samherja hafa rúið félagið að skinni
Stjórnarformaður ArcticNam, Virgilio De Sousa, sagðist styðja starfsmenn togarans að fullu í viðtali við New Era. Hins vegar sagði hann stjórn fyrirtækisins vera að reyna að draga Samherja til ábyrgðar um fjármál félagsins, sem sé óvirkt þessa stundina, Samkvæmt honum reyndu Samherjamenn að leysa upp félagið árið 2019, en aðrir hluthafar voru á móti því.
De Sousa bætti einnig Samherja hafa rúið fyrirtækið inn að skinni og að það ætti engar eignir þessa stundina sem hægt væri að selja. „En við munum hittast á hluthafafundi í vikunni til að sjá hvort við getum leyst málið, þar sem stjórnin er ekki ábyrg gagnvart þessum greiðslum,” sagði hann.
Munu leita til hæstaréttar ef félagið greiðir ekki
Talsmaður starfsmannanna á Heinaste, Philip Munenguni, sagði hins vegar að þeir myndu leita réttar síns hjá hæstarétti Namibíu ef úrskurði félagsdómsins yrði ekki mætt í lok mánaðarins: „Starfsmennirnir hafa þjáðst nógu lengi og ég mun sjá til þess að þeir fái allt það sem þeir eiga skilið samkvæmt úrskurðinum“.
Breytt kl: 13:14. Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að uppsögn starfsmannanna væri í kjölfar kyrrsetningar togarans árið 2019. Hið rétta er að starfsmönnum Heinaste var sagt upp árið 2018 og leigustarfsmenn voru ráðnir í staðinn.