FÍB-aðstoð, vegaþjónusta sem stendur félagsmönnum í Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) til boða alla daga ársins, hefur annast Vegaaðstoð Sjóvár síðan 2007. Í tilkynningu FÍB vegna uppsagnarinnar segir að engar skýringar hafi fylgt fyrirvaralausri uppsögninni. „Ekki er hægt að álykta annað en að stjórnendur Sjóvár hafi sagt viðskiptunum upp til að refsa FÍB fyrir gagnrýni á fimm milljarða króna greiðslur til hluthafa tryggingafélagsins,“ segir í tilkynningu FÍB.
Uppsögnin barst í lok október, fjórum vikum eftir að FÍB birti áskorun til Sjóvár um að skila ofteknum iðgjöldum til viðskiptavina frekar en láta þau renna í vasa hluthafa. Sjóvá greiddi fasta upphæð mánaðarlega til FÍB-aðstoðar fyrir að sjá um Vegaaðstoð fyrir félaga í Stofni.
„Afar gott samstarf hefur verið við starfsfólk Sjóvár um þessa þjónustu. Tímasetning uppsagnarinnar sýnir ofurviðkvæmni stjórnenda Sjóvár fyrir heilbrigðu aðhaldi hagsmunasamtaka neytenda. Hvernig staðið var að uppsögninni staðfestir þá ályktun FÍB. Í samningnum eru ákvæði um að aðilar hans skuli leitast við að ná samkomulagi ef þörf krefur. Ekkert slíkt var reynt af hálfu Sjóvár, aðeins einföld uppsögn á almennt netfang FÍB,“ segir í tilkynningu FÍB, þar sem einnig kemur fram að þrátt fyrir að félagið hafi í áratugi gagnrýnt óeðlilega há iðgjöld ökutækjatrygginga og samkeppnisskort á tryggingamarkaðnum hafi það ekki truflað samstarfið um vegaaðstoðina, enda um óskyld verkefni að ræða.
FÍB gagnrýndi áform um fimm milljarða króna hluthafagreiðslur
Í umræddri áskorun FÍB til Sjóvár, sem send var 29. september, sagði meðal annars:
„Sjóvá hefur kynnt áform um að greiða hluthöfum 2,5 milljarða króna í tengslum við hlutafjárlækkun félagsins. Þessi fjárhæð kemur til viðbótar við 2,65 milljarða króna arðgreiðslu ársins. Samtals ætlar Sjóvá því að greiða hluthöfum rúmlega 5 milljarða króna. Ástæðu greiðslunnar til hluthafa segir Sjóvá vera þá að geta félagsins til að greiða tjón sé „fyrir ofan efri mörk viðmiða.“ Það er vægt til orða tekið. Sjóvá liggur á gríðarlegum fjármunum sem félagið hefur sankað að sér með ofteknum iðgjöldum, ekki síst af bílatryggingum. Hluthafar Sjóvá eiga ekki þessi „efri mörk viðmiða“, heldur tryggingatakar. Með réttu á Sjóvá að skila þessum 2,5 milljörðum króna til viðskiptavina sinna.“
FÍB skoraði í kjölfarið á stjórn Sjóvá að leggja til við hluthafafund félagsins að hlutafjárlækkunin gangi til viðskiptavina. Stjórn Sjóvár varð ekki við þeirri áskorun. Á hluthafafundi Sjóvá 19. október var samþykkt að greiða hluthöfum félagsins 2,5 milljarða króna til að „laga fjármagnsskipan félagsins“ eins og segir í fundargerðinni. „Á mæltu máli þýddi þetta orðalag að Sjóvá hafði safnað mun meiri fjármunum í sjóði sína en þurfti til að standa undir tryggingastarfseminni. FÍB taldi aftur á móti eðlilegra að skila þessum ofteknu fjármunum til viðskiptavina félagsins,“ segir í tilkynningu FÍB.