Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að honum finnist stundum eins og flokkur sinn sé orðinn nokkurs konar framkvæmdastjóri Íslands. Ástæða þess sé að flokkurinn hafi verið svo lengi í ríkisstjórn og formaður hans, Bjarni Benediktsson, svo lengi í fjármálaráðuneytinu, en Bjarni hefur setið þar frá vorinu 2013 að undanskildum nokkrum mánuðum á árinu 2017 þegar hann var forsætisráðherra. Að mati Páls hefur þessi staða orsakað það að hugsjónir og raunveruleg stjórnmál víki fyrir skriffinnsku og embættisræði.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Pál í Fréttablaðinu í dag.
Þar ræðir Páll meðal annars blaðagrein sem hann skrifaði í sumar þar sem hann setti fram margháttaða gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn, og vakti mikla athygli fyrir. Páll sagði að helstu vandamál flokksins fælust annars vegar í klofningi í báða enda og hins vegar í víðtækum trúverðugleikabresti vegna umsvifa fjölskyldu formannsins í viðskiptalífinu og tengsla sjávarútvegsráðherra við Samherja.
Páll, sem er sitjandi oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, hafði þá þegar ákveðið að bjóða sig ekki fram til endurkjörs í komandi kosningum. Þetta leiddi til þess að Sjálfstæðisflokkurinn væri fastur í fylgi sem væri sögulega lítið, en flokkurinn mældist með 23,6 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Kjarnans. Yrði það niðurstaða kosninga væri um að ræða verstu niðurstöðu Sjálfstæðisflokksins í sögu hans.
Hljóta að ræða hvort fullreynt sé að ná árangri með Bjarna
Í viðtalinu í Fréttablaðinu segir Páll að honum finnist að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að taka frumkvæðið í að laga agnúa á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hingað til hafi flokkurinn hins vegar staðið vörð um óbreytt kerfi, sem minnki ekki grunsemdir um hagsmunaárekstur, sérstaklega þegar Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hafi sterk tengsl við stærstu útgerð landsins, Samherja. „Þegar kemur að grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að sitja hjá aðgerðalaus.“
Sagði flokkinn ekki hafa skírskotun til almennra kjósenda
Viðtalið við Pál, þar sem hann bætir í gagnrýni sína á Sjálfstæðisflokkinn, kemur í kjölfar þess að fyrrverandi þingmaður hans, Vilhjálmur Bjarnason, birti grein í Morgunblaðinu í gær þar sem hann fer hörðum orðum um ástand flokks síns. Vilhjálmur sóttist eftir því að vera ofarlega á lista Sjálfstæðisflokks í Suðvesturkjördæmi í prófkjöri fyrr á árinu en var hafnað.
Í greininni sagði Vilhjálmur að hann hafi nú lokið afskiptum að stjórnmálum og það gefi honum færi á að láta ýmislegt frá sér fara eftir að hafa spurt sig áleitinna spurninga. „Fyrsta spurningin er sú hvort hin „lýðræðislega“ aðferð prófkjöra hafi skilað sigurstranglegum framboðslistum? Horfandi á mál utan frá og spurt þá sem ekki eru innmúraðir, segja kjósendur: Þetta fólk höfðar ekki til mín! Þetta fólk hefur enga skírskotun til mín! Þetta fólk hefur orðið til í kosningamaskínunni inni í Sjálfstæðisflokknum! Engin skírskotun til almennra kjósenda!“
Hann sagði enn fremur að fjölbreytni hafi verið úthýst úr Sjálfstæðisflokknum og að spyrja mætti hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé að verða eins máls flokkur þar sem „hagkvæmni“ fiskveiðistjórnarkerfisins ræður för?
„Forysta flokksins tók þá afstöðu árið 2014, eftir að hafa lofað „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um aðild að Evrópusambandinu, að afturkalla aðildarumsókn, sem að öðru leyti lá í svefni og skaðaði engan. Þetta leiddi til þess að stór hópur í atvinnurekendaliði Flokksins sagði skilið við Flokkinn og gekk til liðs við nýjan smáflokk! Góð leið til að minnka stjórnmálaflokk! Það er einnig góð leið til að minnka flokk að viðhalda óskiljanlegri umræðu um fullveldi á plani frá 1918! Hvernig má það vera að flokkur, sem var með 40% kjörfylgi, telur það ásættanlegt að fá 25% kjörfylgi?“