Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur hækkað lánshæfismat Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í BBB+ frá BBB og hækkað lánshæfismatið fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt í A- frá BBB+. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands sem barst fjölmiðlum nú í kvöld.
Þá hefur matsfyrirtækið einnig hækkað lánshæfismatið fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt í F2 frá F3 og hækkað landseinkunnina í BBB+ frá BBB. Horfur fyrir lánshæfismat á langtímaskuldbindingum eru stöðugar.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Fitch Ratings vegur aðgerðaráætlun stjórnvalda til losunar fjármagnshafta þyngst í hækkuninni. Matsfyrirtækið telur aðgerðaráætlunina trúverðuga og að hún muni taka vel á þeim greiðslujafnaðarvanda sem fyrir liggur.
Aðrir þættir sömuleiðis mikilvægir
Þá telur Fitch að losun hafta muni bæta umhverfi atvinnulífsins. Þar að auki mun framkvæmd áætlunarinnar og tengd fullnusta á uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna færa ríkissjóði umtalsverða búbót og bæta verulega erlenda stöðu þjóðarbúsins.
Aðrir þættir höfðu líka sitt að segja varðandi hækkunina á lánshæfi ríkissjóðs. „Frá síðustu endurskoðun Fitch hefur skuldastaða hins opinbera batnað. Skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa lækkað úr 96.5 prósentum árið 2011 í 81.2 prósent 2014. Frumjöfnuður hefur verið jákvæður frá 2012,“ eins og segir í fréttatilkynningunni frá Seðlabankanum.
Þá reiknar Fitch með að skuldahlutfallið lækki í 74,6 prósent á yfirstandandi ári og nái 63,3 prósentum árið 2017. „Stöðugleikaframlagið ætti að færa ríkissjóði verulega búbót, en fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tilkynnt um að hagnaðurinn verði notaður til að greiða niður skuldir fremur en að auka ríkisútgjöld. Vegna óvissu um tímasetningu og fjárhæð eru fjárhagsleg áhrif stöðugleikaframlagsins ekki talin með í grunnspám Fitch.“