Yanis Vanoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, ásakaði kröfuhafa landsins um hryðjuverk í viðtali við spænska blaðið El Mundo í dag. Grikkir munu á morgun kjósa um hvort þeir vilji ganga að samkomulagi við kröfuhafa gríska ríkisins. Í skoðanakönnun sem birtist á fimmtudag mældist stuðningur við samkomulagið 47 prósent. Um 43 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa „nei“.
Varoufakis hefur verið harðorður í viðtölum í vikunni og sannarlega ekki sparað stóru orðin. Í viðtali við Bloomberg á fimmtudag sagði hann myndi frekar skera af sér hendina heldur en að skrifa undir samkomulag við kröfuhafa sem gerir gríska ríkinu ókleift að endurskipuleggja skuldastöðuna. Hann sagðist enn fremur myndu segja af sér ef gríska þjóðin kýs „Já“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Í viðtalinu við El Mundo í dag sagði hann: "Það sem þeir eru að gera Grikklandi á sér nafn - hryðjuverk. Það sem Brussel og þríeykið [e. troika] vilja er að "já" vinni svo þeir geta auðmýkt Grikki".
Mikið er undir á sunnudaginn fyrir ríkisstjórn Alexis Tsipras forsætisráðherra sem gæti fallið verði samþykkt samninga við kröfuhafa niðurstaðan. Leiðtogar stærstu evruríkjanna og Evrópusambandsins hafa sagt með skýrum hætti að í raun kjósi Grikkir um áframhaldandi veru í evrusamstarfinu.
Bankar í Grikklandi hafa verið lokaðir alla vikuna og geta Grikkir ekki tekið hærri fjárhæð en 60 evrur, ríflega átta þúsund krónur, úr hraðbönkum á dag. Óvissa um framhaldið hefur leitt til óvenjulegra aðstæðna í landinu, svo ekki sé meira sagt, þar sem langar biðraðir myndast við hraðbanka og bæði launþegar og atvinnurekendur vita ekkert um framhald mála.