Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að sérstakt yfirlit yfir svokallaðar fjársópseignir sé ekki fyrirliggjandi og því sé ekki hægt að afhenda það. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við beiðni Kjarnans um yfirlit yfir allar slíkar eignir, hvað fékkst fyrir hverja og eina þeirra, hvenær hver þeirra var seld eða virði hennar greitt til ríkissjóðs og hverjir fengu að kaupa þær fjársópseignir sem seldar voru.
Í kjölfar þess að gerðir voru stöðugleikasamningar við kröfuhafa föllnu bankanna árið 2015 bjó íslenska ríkið til félag sem kallaðist Lindarhvol til að taka við þeim eignum sem féllu ríkinu í skaut vegna samninganna. Það félag starfaði frá 2016 til 2018 og eignirnar sem það sýslaði með voru mörg hundruð milljarða króna virði. Hluti þeirra voru svokallaðar framsalseignir, sem Lindarhvol tók yfir og ráðstafaði beint.
Þar var líka um að ræða umræddar fjársópseignir. Í einföldu máli voru það eignir sem slitabú bankanna héldu eftir og seldu, en afrakstur þeirrar sölu rann í ríkissjóð. Á meðal eigna sem töldust til fjársópseigna voru eignarhlutir í félögum sem seldir voru til hópa án útboðs. Slitabú föllnu bankanna hafa ekki viljað veita neinar upplýsingar um þær sölur.
Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um starfsemi Lindarhvols var ekkert fjallað um hverjar fjársópseignirnar voru, hvernig þær voru seldar né hverjir fengu að kaupa þær.
Telur sig ekki hafa svigrúm til að leggja mat á erindi við almenning
Í ljósi þessa kallaði Kjarninn eftir því að fjármála- og efnahagsráðherra legði sjálfstætt mat á að láta fjölmiðlinum í té yfirlit yfir allar eignir sem Lindarhvol seldi á starfstíma sínum, upplýsingar um hvenær sala þeirra fór fram og á hvaða verði. Enn fremur var óskað eftir upplýsingum um hverjir kaupendur að öllum eignunum hefðu verið. Þá var óskað eftir upplýsingum um hvernig fyrirkomulag á sölu á fjársópseignum var, öllum fundargerðum stjórnar Lindarhvols, afriti af stöðugleikasamningunum sem gerðir voru við slitabú föllnu bankanna og af öllum fylgiskjölum þeirra.
Það telur sig heldur ekki heimilt að afhenda stöðugleikasamningana og vísaði á Seðlabanka Íslands, sem var samningsaðili fyrir hönd ríkisins. Hann hefur ekki viljað láta Kjarnanum samningana í té og Kjarninn hefur kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í svari ráðuneytisins við þeirri fyrirspurn, sem barst í síðustu viku, sagði að sérstakt „yfirlit yfir allar fjársópseignir er ekki fyrirliggjandi og því er ekki mögulegt að verða við upplýsingabeiðninni.“
Ráðuneytið afhenti Kjarnanum hins vegar allar fundargerðir Lindarhvols en var búið að afmá allar upplýsingar úr þeim sem geta svarað spurningum Kjarnans um fjársópseignirnar.
Ráðuneytið kom ekki að ákvörðunum um sölu eigna
Kjarninn óskaði einnig eftir upplýsingum um hvernig fyrirkomulag á sölu á svokölluðum fjársópseignum var. Þ.e. þegar slitabú seldi slíkar eignir, voru ráðherra eða fulltrúar hans upplýstir um þá sölu fyrirfram? Þurfti ráðherra eða fulltrúi hans að samþykkja söluna áður en gengið var frá henni?
Í svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að fjársópseignirnar hafi ekki verið framseldar ríkissjóði heldur hafi þær verið „í eigu, vörslu og umsýslu slitabúanna sem skuldbundu sig til að greiða endurheimtur í íslenskum krónum vegna þeirra til ríkissjóðs eftir því sem þær féllu til inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs í Seðlabanka.“ Lindarhvol hafi haft eftirlit og umsjón með eignunum. „Fjármála- og efnahagsráðuneytið kom ekki að ákvörðunum um ráðstöfun einstakra eigna, hvorki framsalseigna né fjársópseigna.“