Samhliða auknum hagnaði fjarskiptafélaganna Símans og Sýnar hækkuðu forstjórar þeirra töluvert í launum á síðasta ári. Hagnaðinn má að mestu leyti rekja til eignasölu félaganna, en einnig mátti greina tekjuvöxt og meiri framlegð af sölu þeirra. Áhrif faraldursins á fyrirtækin hafa einnig minnkað, þótt enn séu reikitekjur ferðamanna minni en áður. Þetta kemur fram í ársreikningum Símans og Sýnar, sem birtust á vef Kauphallar í vikunni.
Söluhagnaður vegur þungt
Heildarhagnaður Símans jókst töluvert í fyrra, eða úr 2,9 milljörðum króna í 5,2 milljarða. Hjá Sýn nam hagnaðurinn 2,1 milljarði króna á árinu, en það er í fyrsta skiptið sem félagið skilar jákvæðri afkomu frá árinu 2018.
Stærsti hluti hagnaðarins hjá Símanum kom hins vegar vegna sölu á dótturfélagi sínu Sensa ehf., en félagið hagnaðist um 2,2 milljarða króna vegna þess. Sömuleiðis komu 1,2 milljarðar króna frá innviðafélaginu Mílu, sem Síminn hyggst selja til franskra fjárfesta í ár.
Rekstrarniðurstaða Sýnar var einnig lituð af einskiptishagnaði, en félagið seldi farsímainnviði sína á árinu til bandarískra fjárfesta. Hagnaðurinn af þeirri sölu var 6,5 milljarðar króna, en 2,5 milljarðar af þeirri upphæð var bókfærður í fyrra. Því skilaði Sýn tapi af rekstri sínum enn eitt árið í fyrra, ef söluhagnaðurinn er ekki tekinn með.
Betri rekstur og hærri laun forstjóra
Hins vegar bættist rekstur beggja félaga einnig nokkuð á árinu, en samkvæmt Símanum skýrist góð afkoma þeirra af árangursríkum hagræðingaraðgerðum. Þar nefnir félagið auknar tekjur á ýmsum vörum, líkt og farsímum og sms magnsendingum, en einnig hefur launakostnaður minnkað töluvert vegna færri stöðugilda.
Hjá Sýn jukust tekjur úr fjölmiðlahluta félagsins, mestmegnis vegna helmingi meiri auglýsingatekna hjá Vísi. Einnig segir félagið að góður vöxtur hafi verið í farsímatekjum, auk þess sem bætt innkaupastýring hafi skilað sér í meiri hagnaði af vörusölu félagsins.
Samhliða bættum rekstrarniðurstöðum félaganna tveggja hafa laun forstjóra þeirra einnig hækkað töluvert. Heildarlaun Orra Haukssonar, forstjóra Símans, að frádregnum lífeyrisgreiðslum námu að meðaltali 5,6 milljónum króna á mánuði í fyrra, en það er 16,3 prósentum meira en á árinu 2020.
Laun Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar, hækkuðu þó enn meira, eða úr 3,5 milljónum á mánuði í 5,3 milljónir króna. Þetta jafngildir 50 prósenta launahækkun.
COVID-áhrif minni, en þó til staðar
Samkvæmt Sýn gætti áhrifa heimsfaraldursins enn í rekstri félagsins í fyrra, þar sem reikitekjur ferðamanna voru helmingi lægri en þær voru fyrir faraldurinn. Þó höfðu þær hækkað um 40 prósent á milli áranna 2020 og 2021. Sömuleiðis jukust reikitekjur aftur hjá Símanum, eftir að hafa að mestu leyti horfið árið 2020.
Sýn segir einnig að versnandi rekstur dótturfélagsins Endor, sem veitir fyrirtækjum þjónustu um rekstur upplýsingatæknikerfa, sé vegna faraldursins. Félagið býst við miklum tekjuvexti í ár, þar sem búist er við að reksturinn komist aftur í fyrra horf eftir faraldurinn.