Alls voru 475.842 farsímaáskriftir skráðar hjá íslenskum fjarskiptafyrirtækjum í lok síðasta árs. Það er 303 áskriftum færri en voru skráðar ári áður. Í fyrsta sinn frá því að GSM-síminn hóf mælanlega innreið sína inn á íslenskan fjarskiptamarkað árið 1994 fækkaði því farsímaáskriftum milli ára.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræði skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna í lok árs 2020.
Að sama skapi tvöfaldaðist fjöldi svokallaðra tæki í tæki áskrifta (e. M2M). Þær voru um 54 þúsund í lok árs 2019 en 112 þúsund um síðustu áramót.
Minnstu fyrirtækin að bæta mestu við sig
Á Íslandi eru þrjú fjarskiptafyrirtæki; Síminn, Nova og Vodafone (sem tilheyrir Sýn-samstæðunni) sem eru samanlagt með 96,1 prósent markaðshlutdeild á farsímamarkaði.
Einungis eitt þeirra, Nova, fjölgaði viðskiptavinum sínum á markaðnum á árinu 2020, ein þeim fjölgaði þó einungis um átta. Markaðshlutdeild Nova stóð því nánast í stað en hún var 32,9 prósent í lok síðasta árs.
Vodafone tapaði sömuleiðis nokkrum fjölda áskrifta og markaðshlutdeilt fyrirtækisins dróst saman um 0,5 prósentustig. Hún var 26,7 prósent um síðustu áramót.
Þegar horft er lengra aftur í tímann, til loka árs 2018, getur Síminn vel við unað. Hann er eina stóra fjarskiptafyrirtækið sem hefur bætt við sig áskriftum frá þeim tíma, eða 3.467 talsins. Á sama tíma hefur áskriftum hjá Nova fækkað um 2.089 og hjá Voddafone um 7.150.
Aðrir aðilar á markaði, þeir sem skipta nú á milli sín tæplega fjögur prósent markaðshlutdeild, hafa þó bætt mestu við sig á síðustu tveimur árum. Fjöldi áskrifta sem eru ekki hjá stóru þremur hefur farið úr 11.420 í 18.371. Það er aukning upp á 60 prósent á tveggja ára tímabili. Í því mengi er fjarskiptafyrirtækið Hringdu fyrirferðarmest.
Úr rúmlega tvö þúsund í tæpa hálfa milljón
Fyrsta aðgengilega tölfræðiskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn kom út árið 2005. Þar voru birtar tölur um fjölda skráðra GSM-áskrifta aftur til ársins 1994, þegar þær voru 2.119 talsins. Næstu árin fjölgaði þeim jafnt og þétt og voru orðnar 284.521 árið 2005.
Með snjallsímabyltingunni, sem kom til eftir að fyrsti iPhone-inn var kynntur til leiks sumarið 2007, breytist hlutverk símans umtalsvert og hann fór að nýtast í mun fleiri hluti en áður. Nú til dags er þessi litla tölva í vasa okkar flestra helsta tækið sem notað er til að nálgast afþreyingu, samfélagsmiðla og fréttir. Hún er auk þess myndavél, hallamál, veðurfræðingur, næringarráðgjafi og ýmislegt annað.
Árið 2007 var heildarfjöldi GSM-áskrifta kominn í tæplega 312 þúsund hérlendis. Árið 2010 var fjöldinn kominn í 375 þúsund og 2014 fór hann yfir 400 þúsund.
Fjöldinn náði því að vera tæplega 476 þúsund árið 2019 en, líkt og áður sagði, skrapp hann saman í fyrra í fyrsta sinn frá því að farið var að halda utan um þessar tölur.