Í efsta sæti vísitölu Blaðamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi, fimmta árið í röð, er Noregur. Finnland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja sæti og Svíþjóð í fjórða sæti.
Ísland situr hins vegar í 16. sæti á lista samtakanna og fellur um eitt sæti á milli ára.
Athygli vekur að í öllum þessum ríkjum er umfangsmikill ríkisstuðningur við einkarekna fjölmiðla.
Hérlendis hefur staðið yfir ferli um að koma á slíku styrkjakerfi frá árinu 2016. Fyrst var skipuð nefnd, svo var rituð skýrsla, þá var unnið úr tillögum hennar og loks smíðuð frumvörp. Ekkert þeirra hefur náð í gegn nú tæpum fimm árum eftir að ferlið hófst, aðallega vegna þess að hluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru á móti styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Síðasta útgáfa frumvarpsins situr nú föst inni í allsherjar- og menntamálanefnd þangað sem henni var vísað eftir að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fékk að mæla fyrir málinu seint á síðasta ári.
Svipað og fyrri frumvörp
Frumvarpið er í grunninn með svipuðu sniði og tvö fyrri frumvörp sem Lilja lagði fram til þingsins, eftir að þau höfðu verið samþykkt í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna þriggja. Það felur í sér að einkareknir fjölmiðlar á Íslandi verði styrktir um tæpar 400 milljónir króna á ári úr ríkissjóði.
Í bæði fyrri skiptin sofnuðu frumvörp Lilju svefninum langa í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, sem Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins stýrir.
Ísland eina norræna ríkið sem veitir ekki stuðning
Í greinargerð með frumvarpi Lilju um stuðning við einkarekna fjölmiðla er dregið fram að Ísland er eina norræna ríkið sem ekki veitir beina eða óbeina styrki til einkarekinna fjölmiðla.
„Í Finnlandi eru veittir styrkir til fréttablaða sem gefin eru út á tungumálum minnihlutahópa. Víðtækari framleiðslu- og dreifingarstyrkir eru veittir í Noregi og Svíþjóð. Í Danmörku er annars konar styrkjakerfi þar sem stuðningur er veittur til framleiðslu ritstjórnarefnis á prentuðu formi fyrir smærri fjölmiðla með útbreiðslu á landsvísu auk þess sem netmiðlum er veittur stuðningur. Í Danmörku er einnig veittur verkefnastyrkur vegna stofnunar nýrra fjölmiðla og þróunar þeirra miðla sem fyrir eru á markaðnum,“ segir í greinargerðinni.
Þar segir enn fremur að á Norðurlöndunum hafi mikil umræða átt sér stað um að styrkja einkarekna fjölmiðla enn frekar til að þeir nái að fóta sig í heimi þar sem færri og færri kjósa að greiða fyrir fréttir og samfélagsmiðlar hirða stóran hluta auglýsingakökunnar.
Mestur stuðningur í Noregi
Mestur er stuðningurinn í Noregi, því landi þar sem fjölmiðlafrelsi mælist mest í heiminum. Styrkjakerfið hefur því ekki leitt til þess að fjölmiðlar hafi orðið handgengnari valdinu þar líkt og þingmenn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks hafa ítrekað haldið fram að muni gerast hér ef fjölmiðlar verði styrktir úr ríkissjóði.
Í Noregi er enn fremur vilji til að auka við opinbera styrki frekar en að draga úr þeim enda hefur reynslan af þeim verið jákvæð. Hinn 7. mars 2017 skilaði nefnd sem skipuð var af norskum stjórnvöldum hvítbók sem innihélt tillögur til að efla fjölmiðla þar í landi. Meðal þeirra tillagna sem settar voru fram í hvítbókinni var að auka styrkveitingar til smærri fjölmiðla, einfalda umsóknarferlið og gæta jafnræðis milli fjölmiðla óháð því hvernig efni er miðlað. Tillögurnar eru enn til meðferðar hjá norskum stjórnvöldum.“