Útgjöld ríkissjóðs vegna fjórða aðgerðarpakka stjórnvalda til að takast á við efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins eru áætluð 22,7 milljarðar króna.
Mestur er kostnaðurinn vegna framlengingu og útvíkkunar á viðspyrnustyrkjum, eða 7,4 milljarðar króna. Þá kosta ráðningastyrkir fyrir þá sem eru þegar á hlutabótum 4,4 milljarða króna og áætlað er að kostnaður við sumarstörf fyrir námsmenn og ráðningarstyrki fyrir atvinnuleitendur undir hatti átaksins „Hefjum störf“ verði samanlagt 4,3 milljarðar króna. Barnabótaauki mun kosta 1,6 milljarða króna og áætlað er að ný ferðagjöf kosti 1,4 milljarða króna. Af þeirri upphæð sem áætlað er að fari í nýju ferðagjöfina falla þó til 650 milljónir króna vegna ferðagjafa sem voru ekki nýttar í fyrra.
Á móti er áætlað að ríkissjóður fái um 2,4 milljarða króna í auknar tekjur vegna skattheimtu af úttekt séreignarsparnaðar, en heimild fólks til að taka út þann sparnað til ráðstöfunar nú gegn því að greiða af honum skatt var framlengd í aðgerðarpakkanum. Því stendur eftir að áhrif pakkans á afkomu ríkissjóðs eru áætluð 20,3 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram fyrir helgi. Þar segir enn fremur að afkomuhorfur ársins 2021, sem unnar voru í tengslum við vinnslu fjármálaáætlunar árin 2022–2026, geri ráð fyrir halla sem nemur 320 milljörðum króna, eða 10,2 prósent af vergri landsframleiðslu.
Sértæku aðgerðirnar hafa kostað um 80 milljarða króna
Í skýrslu starfshóps um nýtingu heimila og fyrirtækja á úrræðum vegna kórónuveirufaraldursins, sem birt var í lok apríl, kom fram að heildarumfang stærstu sértæku stuðningsaðgerða stjórnvalda til heimila og fyrirtækja væru ríflega 80 milljarðar króna. Af þeirri upphæð hafi um 72 prósent verið í formi tilfærslna úr ríkissjóði um 15 prósent í formi ríkistryggðra lána og 13 prósent frestun skattgreiðslna. Þá hafi 27 milljarðar króna verið greiddir úr séreignasjóðum, en af þeirri upphæð hafa verið greiddir næstum níu milljarðar króna í skatta. Þá hafa þeir sem nýttu sér það að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af ýmiskonar vinnu fengið um sjö milljarða króna í endurgreiðslur. ÞAr er að uppistöðu um að ræða endurgreiðslu iðnaðarmanna vegna nýbyggingar eða viðhalds á íbúðarhúsnæði.
Til viðbótar koma svo hinir svokölluðu sjálfvirku sveiflujafnarnar sem metið er að kosti um 200 milljarða króna á árunum 2020 og 2o21. Það hugtak nær yfir lækkun á tekjum ríkissjóðs þegar áfall á borð við kórónuveirufaraldurinn skellur á og þann aukna kostnað sem fylgir því þegar atvinnuleysi hækkar jafn hratt og það gerði í kjölfar faraldursins.
Hægt að finna hluta peninga í þegar samþykktum heimildum
Hluta þeirra útgjalda sem falla til vegna fjórða aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er hægt að sækja í þegar samþykktar fjárheimildir sem hafa ekki verið fullnýttar. Því gerir fjáraukalagafrumvarpið ekki ráð fyrir nema 14,5 milljarða króna viðbótarútgjöldum við það sem fjárlög höfðu áður ákveðið.
Inni í þeirri tölu er líka ýmis kostnaður sem tengist ekki innlendum efnahagsaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins beint. Má þar nefna eins milljarðs króna framlags vegna tímabundinnar skilyrtar hækkunar á daggjöldum hjúkrunarheimila og 250 milljón króna framlags til COVAX (sem þróar og dreifir bóluefni gegn COVID-19 til þróunarríkja).