Rúmlega fjórtán prósent háskólanema glímir við fjárhagserfiðleika og tæplega ellefu prósent háskólanema þar að auki glímir við mjög mikla fjárhagserfiðleika. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar um áhrif COVID-19 á stúdenta sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lét gera fyrr í vetur í samvinnu við Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS). Um 31 prósent nema svara því til að þau glími ekki við neina fjárhagserfiðleika á þessum tímapunkti.
Samkvæmt frétt á vef stjórnarráðsins var markmið könnunarinnar að kortleggja aðstæður, námsframvindu og atvinnuhorfur háskólanema vegna kórónuveirufaraldursins. Könnunin var lögð fyrir 2500 manna slembiúrtak allra háskólanema á Íslandi í febrúar og mars og svöruðu 892 eða 35,7 prósent.
Meðal annars var spurt um andlega heilsu stúdenta en rúmlega 54 prósent svarenda metur andlega heilsu sína góða eða mjög góða, 34 prósent meta hana sæmilega og tæplega 12 prósent meta hana lélega. Niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér.
Lítið atvinnuleysi meðal stúdenta sé jákvætt
„Það sem er jákvætt er að staða atvinnuleysis í þessu úrtaki var alls ekki slæm. Fjögur prósent sem voru án atvinnu,“ segir Jóhanna Ásgeirsdóttir, forseti LÍS, spurð út í hvort eitthvað jákvætt megi taka út úr könnuninni. Það bendi til þess að aðgerðir stjórnvalda hafi virkað að einhverju leyti. Hún bendir þó á að um þriðjungur svarenda hafi viljað vinna lengur síðasta sumar. Því sé ljóst að hluti háskólanema hafi ekki aflað sömu tekna og í venjulegu árferði en sumarvinnan skiptir miklu máli fyrir fjárhag stúdenta, að sögn Jóhönnu.
„Það er mjög mikilvægt fyrir stúdenta að geta aflað sér tekna yfir sumarið þó að fólk taki námslán þá duga þau oft ekki fyrir útgjöldum, þannig að við höfðum áhyggjur af stöðunni framan af en það virðist hafa ræst úr þessu sem er mjög jákvætt,“ segir Jóhanna.
Vilja atvinnuleysisbætur fyrir háskólanema
Eitt af því sem LÍS hefur barist fyrir eru atvinnuleysisbætur fyrir stúdenta. „Það kæmi sér mjög vel núna í þessu ástandi sem að nú ríkir að veita stúdentum einhvern öryggisventil eins og öll önnur hafa sem vinnu. 72 prósent stúdenta vinna með skóla og 90 prósent á sumrin á venjulegu ári eru að vinna og eiga að okkar mati rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta er langtímamarkmið en við viljum auðvitað sjá þetta fara í gegn strax. Þetta er bæði COVID aðgerð en líka bara réttlátt að okkar mati.“
Þá bendir Jóhanna á að hækkun námslána sé einnig ofarlega á baugi hjá samtökunum. Hún segir grunnframfærsluna vera of lága sem valdi því að margir stúdentar vinni mikið með skóla. Þá geti stúdentar lent í ákveðnum vítahring því bæði skerðast námslánin með auknum tekjum og mikil vinna getur haft það í för með sér að námsfólk ljúki ekki tilætluðum einingafjölda sem einnig skerðir námslán. „Þetta er vítahringur. Stúdentar eru fastir á milli þess að taka lán eða ekki og vera samt alltaf í fjárhagserfiðleikum,“ segir Jóhanna.
Framfærsla hækkar í takt við verðlagsbreytingar
Stjórnvöld kynntu nýverið nýjar úthlutunarreglur fyrir Menntasjóð námsmanna fyrir næsta skólaár. Þar kemur meðal annars fram að framfærsla, húsnæðisbætur og barnastyrkur hækki um 3,45 prósent en hækkunin tekur hliðsjón af verðlagsbreytingum. Þá hækkar frítekjumark námsmanna 1.410.000 krónur sem er hækkun um 46 þúsund krónur frá fyrra ári.
Þessi hækkun er ekki í takt við kröfur stúdenta en LÍS hleypti nýverið af stokkunum herferðum hækkun grunnframfærslu framfærslulána. Krafa samtakanna hljóðar upp á 17 prósent hækkun framfærslu „til að tryggt sé að hún samsvari, að lágmarki, dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins.“