Með stjórnarsáttmála endurnýjaðs ríkisstjórnarsamstarfs sem kynntur var fyrir áramót fjölgar ráðuneytum úr tíu í tólf og fjölmargir málaflokkar færast milli ráðuneyta. Í umsögnum um breytta skipan ráðuneyta snúast margar að flutningi verkefna frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til ráðuneyta á borð við félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.
Staða framhaldsskólans þurfi að vera skýr
Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans, segir að í þingsályktunartillögu forsætisráðherra um breytta skipan ráðuneyta sjái hann ekki með góðu móti að hugsað hafi verið til enda hver staða framhaldsskólans sé með breytingunni. Þá segir hann það bagalegt að framhaldsskólinn sé ekki nefndur á nafn í þingsályktunartillögunni.
„Það virðist sem eitt ráðuneyti taki á málefnum barna upp að 18 ára aldri og þar með þeim skólastigum sem því aldursbili tilheyra,“ segir í umsögn Magnúsar, sem sendir hana í samráði við Kristin Þorsteinsson, formann Skólameistarafélagsins og skólameistara FG, sem og í samráði við nokkurn hóp skólameistara.
Gagnýnir flutning framhaldsfræðslu til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis
Menntamálastofnun gerir athugasemd við fyrirhugaðan flutning málaflokksins framhaldsfræðsla til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, sem Guðmundur Ingi Guðbransson, fyrrverandi umhverfisráðherra, stýrir nú. Stofnunin telur að með því sé verið að auka líkurnar á fjarlægð og aðskilnaði frá hinu almenna menntakerfi. „Mun þetta auka óvissu einstaklingar um það hvort námið verði metið til eininga; hvernig nám sem á sér stað á einum stað muni opna leiðir inn í önnur menntunarúrræði,“ segir í umsögninni.
Menntamálastofnun bendir á að á öllum Norðurlöndum heyrir framhaldsfræðslan undir ráðuneyti menntamála og stjórnsýslustofnanir þeirra ráðuneyta. Menntamálastofnun mun áfram heyra undir mennta- og barnamálaráðuneyti og er það mat stofnunarinnar að ef færa á stjórnsýslulega ábyrgð framhaldsfræðslu yfir til annars ráðuneytis er hætt við að núverandi hlutverk stofnunarinnar varðandi þennan málaflokk muni riðlast.
Meðal annarra athugasemda má nefna Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins sem segir í umsögn sinni að félaginu sé ekki kunnugt um að þekking sérfræðinga Stjórnarráðsins hafi verið nýtt sem skyldi í undirbúningi þeirra breytinga á skipan ráðuneyta með breyttri skipan ráðuneyta. Félagið bendir á mikilvægi þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd beini því til forsætisráðuneytisins að viðhaft verði fullnægjandi samráð við sérfræðinga Stjórnarráðsins um innleiðingu fyrirhugaðra breytinga.
Samningur Rauða krossins við ráðuneyti og Útlendingastofnun brostinn vegna tilfærslu
Athugasemdir snúa ekki einungis að menntamálum. Í umsögn Rauða krossins segir að félagið hafi áhyggjur tengdar kynningu og framkvæmd á tilfærslu þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins þar sem hún hefur áhrif á gildandi samning Rauða krossins við dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun og þar með á allt að 600 notendur þjónustunnar sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Fram kemur í umsögninni að dómsmálaráðuneytið hafi gefið þá skýringu að með tilfærslu hluta verkefnisins til annars ráðuneytis séu forsendur samningsins brostnar og hefur ákveðið að framlengja ekki samningnum út febrúar 2023 eins og heimilt var að gera en hann rennur að óbreyttu út í lok næsta mánaðar.
Rauði krossinn hefur talað fyrir því að þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd verði ekki á forræði Útlendingastofnunar en áhyggjur félagsins af flutningi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins snúast fyrst og fremst að því að umræddar breytingar og sá skammi tími sem ætlaður er í þær muni valda rofi á þjónustu til umsækjenda um alþjóðlega vernd og að verðmæt reynsla og yfirgripsmikil þekking og gagnagrunnar sem Rauði krossinn hefur byggt upp frá árinu 2014 á grundvelli samninga félagsins við dómsmálaráðuneytið glatist við tilfærsluna.