Hvernig bregst fólk við þegar það er beðið um að skipta á lottó-miðum? Út á það gekk tilraunin í síðasta þætti af Ferð til fjár á RÚV. Haukur Freyr Gylfason aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og sérlegur tilraunarmaður Ferðar til fjár, hélt í Happahúsið í Kringlunni og bað fólk um að skipta á lottómiða sem það hafði keypt skömmu áður á öðrum eins miða – nema með öðrum tölum auðvitað.
Haukur Freyr Gylfason, aðjúnkt við HR.
Tilraunin varpar ljósi á hvort fólk hugsi mikið um þá eftirsjá sem gæti fylgt því að skipta á vinningsmiða. Fram kom í þættinum að þeir sem láta hræðslu og eftirsjá hafa mikil áhrif á sig bregðast seinna við en aðrir. Það getur til dæmis haft áhrif í hlutabréfaviðskiptum.
Viltu skipta?
Viðbrögð miða-eigenda voru misjöfn þegar við báðum þá um að skipta á miðum við okkur. Flestir sögðu þó já, en örfáir vildu hreinlega ekki taka sénsinn. Það gæti tekið á ef við myndum vinna á miðann þeirra.
Árna Hjartarsyni, lottó-kaupanda í Kringlunni, fannst til að mynda ekkert mál að skipta um miða. „Ég sé að þú hefur ekki trú á þessum miða. Þá verð ég að láta þig hafa annan sem er betri,“ sagði hann. Aðrir sögðu nei, það yrði sárt að sjá vinninginn fara annað á miðann sem þau höfðu í höndunum.
Niðurstöður þessarar fjórðu tilraunar Ferðar til fjár eru þær að sumir forðast eftirsjá eins og heitan eldinn og vildu alls ekki skipta, á meðan öðrum fannst það lítið mál. Hugsa flestir Íslendingar lítið um mögulega eftirsjá og bregðast skjótt við aðstæðum?
Fyrri tilraunir:
Hefur hegðun annarra áhrif á hegðun þína?
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.