Kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð í máli einstaklings frá Venesúela þann 18. júlí og felldi með honum úr gildi fyrri ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Síðan úrskurðurinn var kveðinn upp hafa um 100 manns frá Venesúela fengið viðbótarvernd á Íslandi, samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur frá Útlendingastofnun. Engri umsókn einstaklings frá Venesúela hefur á sama tíma verið synjað, samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni.
Rúmlega 300 umsóknir bíða enn
Til viðbótar er Útlendingastofnun nú með til meðferðar mál rúmlega 300 einstaklinga frá Venesúela sem sækjast eftir vernd hér á landi og líklegt má teljast að í mörgum þeirra verði niðurstaðan hin sama og kærunefnd útlendingamála komst að í júlí – að ekki séu forsendur fyrir Útlendingastofnun til þess að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að fólk sem flýr frá Venesúela skuli almennt fá vernd hér á landi.
Útlendingastofnun segir þó sjálf, í skriflegu svari til Kjarnans, að ómögulegt sé að segja til um hvernig þessi rúmlega 300 mál komi til með að fara – hvort umsækjendurnir fái vernd hér á landi eða hvort stofnunin muni synja þeim um vernd. Hvert mál sé metið á einstaklingsgrundvelli.
Albert Björn Lúðvígsson, lögmaður og talsmaður þess umsækjanda sem hafði betur fyrir kærunefndinni, sagði þó við RÚV fyrir tæpum mánuði síðan að það væri „alveg skýrt“ að þeir Venesúelabúar sem hefðu sótt um vernd hérlendis ættu rétt á henni í ljósi niðurstöðu kærunefndarinnar.
Kjarninn hefur óskað eftir frekari svörum frá Útlendingastofnun um það hvernig stofnunin túlki niðurstöðu kærunefndar útlendingamála og hverjar líklegar lyktir þeirra rúmlega 300 mála sem eru til meðferðar hjá stofnuninni verði, en þau svör hafa ekki enn borist.
Ef niðurstaðan er sú að úrskurður kærunefndarinnar hafi þau áhrif að allir eða nær allir umsækjendurnir frá Venesúela fái alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd er þó ljóst að sérstakt nýtt verklag sem Útlendingastofnun tilkynnti undir lok síðasta árs að taka ætti gildi varðandi afgreiðslur umsókna um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum Venesúela, hefur lítið gildi.
Sögðu að sumir hefðu snúið aftur heim
Útlendingastofnun sjálf sagði, er tilkynnt var um hið breytta verklag varðandi afgreiðslur umsókna þessa hóps flóttafólks, sem fólst í því að ekki yrði lengur sjálfkrafa veitt alþjóðleg vernd öllum þeim sem frá Venesúela kæmu, að yfirgæfandi meirihluti þeirra sem þaðan kæmu bæru fyrir efnahagslegar aðstæður og óöryggi í heimalandinu.
Einnig sagðist Útlendingastofnun hafa fengið upplýsingar um það að einhver fjöldi ríkisborgara frá Venesúela hefði snúið aftur til heimalandsins í lengri eða skemmri tíma, eftir að hafa fengið vernd hér á landi.
„Slíkt getur verið grundvöllur afturköllunar á vernd þar sem verndin er veitt á þeirri forsendu að öryggi flóttamanns sé í hættu í heimalandi. Snúi hann þangað aftur gefur það í skyn að flóttamaðurinn þurfi ekki á alþjóðlegri vernd að halda,“ sagði í tilkynningu á vef stofnunarinnar, um hið breytta verklag.
Þetta sagði kærunefnd útlendingamála þó vera haldlítið í úrskurði sínum frá því fyrr í sumar og gerði kærunefndin raunar sérstaka athugasemd við þennan rökstuðning Útlendingastofnunar.
„Í rökstuðningnum er ekki að finna frekari upplýsingar um fjölda þeirra aðila sem hafi snúið til baka eða hvort að litið hafi verið til tilgangs farar þeirra aftur til heimaríkis. Kærunefnd fær ekki séð að það sé forsvaranlegt að láta aðgerðir ótiltekins fjölda einstaklinga án frekari rannsóknar hafa slík áhrif á mat stofnunarinnar hvað varðar aðstæður í Venesúela og einstaklingsbundnar aðstæður ríkisborgara þess lands sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd hér á landi,“ sagði í úrskurðinum.